„Engin heilsa án geðheilsu“

Frá fundi í dag í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.
Frá fundi í dag í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er engin heilsa án geðheilsu,“ segir Agnes Agnarsdóttir, fagstjóri sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við mbl.is eftir að greint var frá úthlutun 630 milljóna króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

Agnes segir að geðheilsugæsla eigi að vera eðlilegur hluti heilsugæslu. Hingað til hafi ekki verið kostur á því að hafa sálfræðinga fyrir fullorðna á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins en vonandi verði nú bætt úr því með aukinni fjárveitingu.

630 milljónirnar skiptast á eftirfarandi hátt:

Sál­fræðing­ar á höfuðborg­ar­svæði 45 millj­ón­ir
Heilsu­gæsla höfuðborg­ar­svæðis­ins 322 millj­ón­ir
Heil­brigðis­stofn­un Vest­ur­lands 46 millj­ón­ir
Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða 21 millj­ón
Heil­brigðis­stofn­un Norður­lands 50 millj­ón­ir
Heil­brigðis­stofn­un Aust­ur­lands 35 millj­ón­ir
Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands 58 millj­ón­ir
Heil­brigðis­stofn­un Suður­nesja 53 millj­ón­ir

Markmiðið að efla heilsugæslu

Við ákvörðun um skiptingu fjárins milli heilbrigðisumdæma var tekið mið af áætlunum heilbrigðisstofnana um uppbyggingu og eflingu geðheilsuteyma, íbúafjölda í viðkomandi heilbrigðisumdæmum og eins var horft til til lýðheilsuvísa embættis landlæknis en þeir varpa ljósi á líðan og heilsu fólks sem hægt er að greina eftir svæðum og nýtast þar með til að greina sértæk svæðisbundin vandamál sem taka þarf tillit til. 

Fram kom þegar greint var frá úthlutuninni í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu í dag að markmiðið sé annars vegar að efla fyrsta stigs þjónustu heilsugæslunnar með aukinni aðkomu sálfræðinga og hins vegar að efla sérhæfðari þjónustu (annars stigs heilbrigðisþjónustu) á sviði geðheilbrigðismála með áframhaldandi uppbyggingu geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Geðheilsuteymi eru ætluð þeim sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en veitt er á heilsugæslustöðvum.

Allt að tólf vikna bið

Heilsugæslunni er ætlað að vera fyrsta stopp fólks með andlega kvilla, líkt og fólk kemur á heilsugæsluna ef það finnur fyrir líkamlegum veikindum. Þar er svo metið hver næstu skref verða.

Spurð um biðtíma eftir viðtali við sálfræðing á heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu segir Agnes að ekki sé hægt að tala um biðlista en víða sé þó bið. „Hún getur verið frá núll vikum upp í tíu til tólf vikur. Það er ansi langt en við erum með þessar beiðnir og tilvísanir hjá okkur og reynum að forgangsraða hvað er aðkallandi,“ segir Agnes og bætir við að það sé þó ekki þannig að þeir sem glíma við vægari einkenni þurfi að bíða endalaust.

Hún bendir á að bið hjá börnum eftir sálfræðiþjónustu sé sveiflukennd og fylgi skólaárinu. Þegar krakkar fara í sumarleyfi finni þeir ef til vill ekki fyrir skólakvíða. „Það er mikil aðsókn í sálfræðiþjónustu og mín trú er sú að hún eigi bara eftir að aukast.“

Agnes segir að það sé mun þægilegra að leita fyrst á heilsugæslu en áður hafi fólk sem fann fyrir andlegum kvillum þurft að byrja á því að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga, með tilheyrandi kostnaði, eða á geðsvið Landspítala.

Það geta verið þung skref ef maður er með vægt þunglyndi eða kvíði að þurfa að leita á göngudeild geðsviðs,“ segir Agnes. „Við ætlum að venja fólk á að það sé eðlilegt að fara á sína heilsugæslustöð ef það þarf á sálfræðiaðstoð að halda.“

Agnes hefur starfað lengi að geðheilbrigðismálum og segir það mjög ánægjulegt að fá þetta viðbótarfé en fyrir fimm árum hefði hún varla trúað þessu. „Það er búið að gera ótrúlega mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert