Ýmsar breytingar eru fyrirsjáanlegar varðandi þau atriði sem skoðunarstöðvar fara eftir er ökutæki eru tekin til aðalskoðunar. Sú vinna er þegar hafin hjá Samgöngustofu, í tengslum við nýlega tilskipun ESB um skoðun ökutækja, sem fjallar meðal annars um mikilvægi réttrar skráningar á stöðu kílómetramæla.
Skoðunarhandbókin verður uppfærð til samræmis við niðurstöður þeirrar vinnu, samkvæmt svari Þórhildar Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu, við fyrirspurn mbl.is.
Undanfarna rúma viku hefur mikið verið fjallað um kílómetrastöðu ökutækja, eftir að bílaleigan Procar gekkst við því að hafa átt við kílómetramæla í bílum sínum, til þess að gera þá auðseljanlegri.
Procar komst upp með athæfið í þó nokkur ár, án þess að upp um svikin kæmist, enda þurfa nýir bílar í eigu bílaleiga ekki að fara í aðalskoðun fyrr en að fjórum árum liðnum. Við aðalskoðun er kílómetrastaðan tekin niður og skráð, þrátt fyrir að í dag sé hún ekki á meðal sérstakra skoðunaratriða miðað við þá handbók sem skoðunarstofur notast við.
Stundum eru eðlilegar ástæður fyrir því að kílómetramælar endurstillast, til dæmis vegna bilana í mælaborðum sem svo er skipt um, en eins og fjallað var um í fréttaskýringarþættinum Kveik í síðustu viku er það líka afar auðvelt, sé maður með rétta búnaðinn, að fikta í kílómetrastöðunni á ákveðnum gerðum bíla.
Ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við það að bílar séu með ranga kílómetrastöðu er þeir koma til aðalskoðunar. Slíka bíla geta bílaleigur til dæmis notað áfram sem bílaleigubíla og blaðamaður hefur séð fjölda dæma um það að skráður akstur bílaleigubíla lækki á milli ára, samkvæmt skoðunarferli úr ökutækjaskrá Samgöngustofu.
Óvíst er hvort að það breytist eitthvað, í kjölfar þeirrar vinnu sem farin er af stað hjá Samgöngustofu. Nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir.