Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem félagið segir að heimili innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk. Með samþykkt frumvarpsins lýkur loks um áratugarlöngum brotum íslenskra stjórnvalda á EES-samningnum, að því er segir á vef FA.
„Íslensk stjórnvöld áttu engan annan kost en að afnema bannið við innflutningi á ferskvöru. Með því að fara ekki að dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands væri gróflega brotið gegn réttaröryggi íslenskra fyrirtækja og gífurlegir hagsmunir íslenskra matvælaútflytjenda settir í uppnám,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, á vef félagsins.
Í greinargerð með frumvarpi ráðherra kemur skýrt fram að samið var um upptöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins í EES-samninginn á sínum tíma til að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs af því að geta komið vöru sinni ferskri á markað í öðrum Evrópuríkjum án þess að hún þyrfti að sæta heilbrigðiseftirliti á landamærum með tilheyrandi umstangi, kostnaði og töfum, að því er segir á vef FA.
Ólafur segir að áframhaldandi brot Íslands á samningnum myndu stefna þessum hagsmunum í tvísýnu. „Þar er um milljarðahagsmuni að tefla. Ábyrgðarleysi þeirra, sem hvetja til áframhaldandi brota á samningnum, er mikið, meðal annars í þessu ljósi. Ísland á að fara að þeim alþjóðasamningum sem það hefur gert til að tryggja breiða hagsmuni, en ekki að láta undan þrýstingi sérhagsmunahópa,“ segir Ólafur á vef Félags atvinnurekenda.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gert eftirfarandi athugasemd:
„Í fréttum undanfarna daga hefur verið fullyrt að í tengslum við frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um innflutning á m.a. ófrystu kjöti sé fyrirhugað að heimila dreifingu á ógerilsneyddum mjólkurafurðum. Kemur þetta m.a. fram í yfirlýsingu stjórnar Bændasamtaka Íslands frá því í fyrradag og í fréttaskýringu á forsíðu Morgunblaðsins í dag þar sem fullyrt er um skaðlegar afleiðingar meintra breytinga.
Vegna þessa vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ítreka að ekki er fyrirhugað í tengslum við boðaðar breytingar að afnema bann við dreifingu á ógerilsneyddum mjólkurvörum.“