„Nú þurfum við að gæta þess vel að koma öllum skilaboðum til okkar félagsmanna,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, spurð um hvað taki nú við í kjölfar þess að viðræðum hefur verið slitið.
Þá hvatti hún sérstaklega sína félagsmenn til þess að fylgjast vel með og að allar fyrirhugaðar aðgerðir verði lagðar fyrir félagsmenn í kosningu.
„Á þessum tímapunkti ætla ég ekki að upplýsa um það, en við erum komin mjög langt með alla undirbúningsvinnu,“ svarar Sólveig Anna spurð um hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar.
Verkalýðsfélögin munu funda um næstu skref í kjölfar þess að viðræðum þeirra og Samtaka atvinnulífsins var slitið í dag.
Deiluaðilar munu hittast áfram á tveggja vikna fresti þrátt fyrir slit á viðræðunum, eins og kveðið er á um í lögum.
„Við munum kynna aðgerðaplan fyrir okkar samninganefnd á morgun og fara yfir fundinn sem við áttum í dag,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um framhaldið.
Um samstarf verkalýðsfélaganna segir Ragnar Þór aðgerðaáætlanir þeirra vera skipulagðar sameiginlega. „Við erum algjörlega samstíga í öllu sem við erum að gera, við höfum teiknað upp aðgerðaplanið bak í bak. Við erum algjörlega saman í þessu í sambandi við kostnað og annað sem við höfum rætt. Félögin standa þétt saman í öllum aðgerðum.“
„Grundvallaratriðið og meginkrafa okkar er að fólkið á lægstu laununum geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn. Slíku er ekki til að dreifa í dag,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
„Verkalýðshreyfing sem ekki hefur kjark og þor til að standa fast við slíka kröfu hún á að finna sér eitthvað annað að gera,“ bætti hann við.