Fjöldi skattþrepa „tæknilegar útfærslur“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að það væri tæknilegt úrfærsluatriði hversu …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að það væri tæknilegt úrfærsluatriði hversu mörg skattþrep væru á Íslandi. mbl.is/​Hari

Virkni kerfisins er það sem skiptir máli,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann brást við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins. Furðaði Sigmundur sig á tillögu ríkisstjórnarinnar um að fjölga skattþrepum í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður í ljósi þess að Bjarni hefði áður sagt að þrjú skattþrep væri mjög óheppilegt fyrirkomulag og til þess fallið að flækja skattkerfið.

Fjármálaráðherra sagði það einungis vera „tæknilegar útfærslur“ hvort til staðar væri tveggja eða þriggja þrepa skattkerfi. Það sem máli skipti væri virkni kerfisins. „Þegar við felldum niður þriggja þrepa kerfið vorum við að eiga við gamla kerfið. Nú erum við að breyta kerfinu eins og það er 2019 og erum að koma með nýtt lægra skattþrep sem skilar mestum ávinningi fyrir fólk sem er í fullu starfi úti á vinnumarkaði. Það er það sem við erum að gera.“

Sagðist Bjarni vera ánægður með tillögu ríkisstjórnarinnar um að fjölga skattþrepum í þessum efnum. „Ég er ánægður með tillöguna að þessu leytinu til. Hún skilar rúmlega 80 þúsund krónum fyrir utan það sem við erum að gera í barnabótum og með sérstakri hækkun persónuafsláttar til heimilanna. Þetta er gríðarlega mikilvægt.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær að tillaga ríkisstjórnarinnar fæli í sér þriggja þrepa skattkerfi hliðstætt við það sem komið hefði verið á í tíð vinstristjórnarinnar 2009-2013 en áður var aðeins eitt skattþrep fyrir tekjuskatt. „Þannig að við erum að leggja til þriggja þrepa kerfi, sambærilegt að einhverju leyti því sem var hér í tíð vinstristjórnarinnar.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert