Strax eftir komandi mánaðamót munu fyrstu íbúarnir flytja inn í fjölbýlishúsið við Urriðaholtsstræti í Garðabæ sem reist hefur verið að undirlagi IKEA á Íslandi.
Alls eru 34 íbúðir í byggingunni og þessa dagana eru iðnaðarmenn að setja upp innréttingar og ýmsan húsbúnað. Öryggisúttekt verður gerð í næstu viku og komi ekkert óvænt upp á ætti fólk að geta farið að koma sér þarna fyrir. Fyrst verður í röðinni fjögurra manna fjölskylda, starfsfólk IKEA, sem hefur verið á hrakhólum.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir ánægjulegt að geta komið til móts við þarfir fólksins. Húsnæðisvandinn á höfuðborgarsvæðinu komi í ýmsu tilliti niður á atvinnulífinu og því sé fyrirtækið nú að bregðast við.
Af alls 34 íbúðum í húsinu eru tuttugu á bilinu 25-35 fermetrar; það er alrými með eldunaraðstöðu, forstofugangur og baðherbergi. Hinar íbúðirnar eru stærri eða í kringum 65 fermetrar og svefnherbergin þar eru tvö, að því er fram kemur í umfjöllun um blokk þessa í Morgunblaðinu í dag.