Jón Baldvin kærir „slúðurbera“

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/Ragnar Axelsson
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, hefur kært fólk, sem hann nefnir „slúðurbera“ í fjölmiðlum fyrir tilhæfulausar sakargiftir, ranghermi og gróf meiðyrði. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag.
Greinin í heild 
Jakob Frímann Magnússon, tónlistar- og athafnamaður, skrifar einnig grein í Morgunblaðið í dag í tilefni áttræðisafmælis vinar hans og samferðamanns um langa hríð, Jóns Baldvins Hannibalssonar.
Afmælisgrein Jakobs Frímanns
Jón Baldvin lýsir því í grein sinni hvernig hann hafi eytt kvöldstund í að renna yfir sögurnar um hann eftir konurnar í „stuðningshópi“ Aldísar Schram á netinu. (Þurfti þess vegna væntanlegra málaferla). „Höfundar skiptust í tvo hópa: Annars vegar voru hinar hugrökku, sem sögðu til nafns. Þeim hef ég þegar svarað. Hinar voru sýnu fleiri sem földu sig bak við nafnleynd.

Þegar þetta er lesið saman, sést að margt er sameiginlegt með sögunum. Dreissugur valdsmaður misbeitir valdi sínu til að níðast á minnimáttar sakleysingjum. Svo breytist karakterinn í drykkfellt dusilmenni, sem konum og börnum stafar hætta af, þegar rökkva tekur.

Subbulegustu sögurnar eru nafnlausar. Það þýðir að höfundarnir þora ekki að standa við orð sín. Og sá sem rægður er, fær engum vörnum við komið. En ein sagan er undantekning að því leyti að þar er getið um stað (Ráðherrabústaðinn) og stund (árið 1996). Sagan er svona: Valdamaðurinn er veisluglaður en situr áfram eftir veislulok. Og er enn þurfandi. Hann er sagður æpa yfir tóman salinn: „Mig vantar kvenmann.“ Þegar engin gegnir kallinu, ryðst hann fram í eldhús og hremmir þar stúlkubarn. Hún er sögð 16 ára í sögunni, en verður 13 ára í endursögnum samfélagsmiðla.

Þetta er eina sagan sem unnt er að sannreyna, bæði stað og stund. Ég mundi vel að ég hafði ekki komið inn fyrir dyr á ráðherrabústaðnum eftir starfslok í ríkisstjórn um mitt ár 1995, fyrr en mörgum árum síðar (til að sitja fund með utanríkisráðherra Eistlands). Ég spurði því veisluhöld ríkisins, sem annaðist veitingar þar á þessum árum, hvort hann gæti staðfest þetta? Hérna er svarið:

„Af gefnu tilefni vottar undirritaður það hér með, að Jón Baldvin Hannibalsson var aldrei veislugestur í Ráðherrabústað á árinu 1996. Sögur um orð hans og athafnir í eða eftir veislu í ráðherrabústað á því ári fá því ekki staðist. Þess skal og getið, að enginn í starfsliði mínu í eldhúsi var eða hefur verið undir lögaldri.“

Jæja. Þá vitum við það. Sagan er uppspuni frá rótum. Tilbúningur. Skáldsaga – skálduð örsaga. Fyrst eina sagan, sem unnt er að sannreyna, reynist vera uppspuni, stendur eftir spurningin: Hvað þá með allar hinar?“ segir í grein Jóns Baldvins sem hægt er að lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Jakob Frímann Magnússon.
Jakob Frímann Magnússon. mbl.is/Sigurður Bogi

Í dag er áttræður vinur minn og samferðamaður um langa hríð, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sjómaður, kennari, skólameistari, ritstjóri, formaður Alþýðuflokksins, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og sendiherra Íslands í Washington og Helsinki.

Fáa menn veit ég jafn leiftrandi greinda, litríka og skemmtilega. Sannarlega öngvan er lagt hefur jafngjörva hönd á að skapa forsendur hins auðuga íslenska velferðarsamfélags sem aldrei hefur staðið í jafnmiklum blóma og einmitt nú. Þökk sé ötulli og einbeittri baráttu hans fyrir þeim kostakjörum sem inngangan í EES, Evrópska efnahagssvæðið, færði okkur um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Jóns Baldvins verður lengi minnst á Íslandi fyrir það pólitíska þrekvirki. Að sama skapi er hans hlýlega minnst í öðrum löndum sem hins djarfhuga stjórnmálamanns er fyrstur steig fram til atfylgis baltnesku þjóðunum í tvísýnni baráttu þeirra fyrir frelsi og langþráðu, endurheimtu sjálfstæði.

Undir ógnandi hótunum Rússa hvikaði utanríkisráðherrann Jón Baldvin hvergi og bauð hinni vígreifu gömlu kommúnistaþjóð birginn án þess að blikna.

Með einstöku íslensku orðfæri mælir hann jafnan óhræddur og tæpitungulaust. Eftir hann liggja ótal snjallar ritgerðir, greinar og bækur. Að minnsta kosti tveggja nýrra ritverka eftir hann er að vænta á þessu ári,“ skrifar Jakob Frímann meðal annars í sinni grein í Morgunblaðinu í dag en hægt er að lesa greinina í heild í blaði dagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert