Misræmi hefur verið í kílómetrastöðum bílaleigubíla sem voru í eigu bílaleigunnar Green Motion, er bílarnir voru færðir inn til aðalskoðunar. Rúnar Laufar Ólafsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar, segir í samtali við mbl.is að þeir sem hafi keypt bíla af fyrirtækinu hafi alltaf haft vissu um rétta kílómetrastöðu bílanna en segist ekki ætla að tjá sig um það hvort bílaleigan hafi fært niður kílómetrastöður ökutækjanna.
mbl.is barst ábending um að hjá þessari tilteknu bílaleigu væri nokkur fjöldi bíla, sem væri með ranga kílómetrastöðu skráða á skoðunarferli í ökutækjaskrá Samgöngustofu.
Blaðamaður hefur skoðað upplýsingar um nærri fjörutíu bíla sem voru í eigu bílaleigunnar, en seldir á árunum 2017 og 2018.
Í sjö þeirra var misræmi í kílómetrafjölda á milli ára er þeir komu til aðalskoðunar og kílómetrafjöldinn á mælinum lægri en árið áður. Í einu tilfelli munar 120.000 kílómetrum á skoðunum áranna 2017 og 2018 og fleiri dæmi eru um að bílarnir hafi lækkað um nærri hundrað þúsund kílómetra á milli árlegra skoðana.
Spurður hreint út, hvort bílaleigan hafi sjálf verið að lækka kílómetrastöðuna, segir Rúnar:
„Ég ætla svo sem ekkert að tjá mig neitt frekar um það. Við þurfum bara að skoða hvert mál fyrir sig og hvað er að gerast með hvert mál fyrir sig. Alla vega, það sem að mér finnst mikilvægast að komi fram og mér finnst mikilvægast í málinu er að bílarnir voru ekki seldir með einhverjum sviksamlegum hætti, gagnvart kúnnum sem að keyptu þá.“
Í samtali við blaðamann í gær nefndi Rúnar einnig að „fólki“, væntanlega viðskiptavinum bílaleigunnar, sé „ekki vel við of mikið keyrða bíla“.
Rúnar hefur sent blaðamanni afsöl vegna þrennra bílaviðskipta, sem sýna fram á að kaupendur bílanna voru upplýstir um að kílómetrastaðan væri röng. Það er líka augljóst af skoðunarferli bílanna, sem kaupendur geta kynnt sér er bílaviðskiptin fara fram.
„Þetta er ekkert sem þú getur falið hvort sem er. Þegar að bíll er seldur þá ber bílasala að framvísa þessum gögnum við sölu og fara yfir þau og tilkynna nýjum eigenda. Það er í sjálfu sér enginn feluleikur með þetta að gera. Ef að talan er ekki rétt á mælinum þá kemur það bara fram þarna í skoðunarferlinu,“ segir Rúnar.
Þrír bílar til viðbótar voru seldir annarri bílaleigu sem „flök“ í varahluti og eru ekki lengur í umferð og sá fjórði seldist annarri bílaleigu árið 2017, þá í óökuhæfu ástandi, að sögn Rúnars.
Í sex tilfellum er um að ræða jeppa af gerðinni Jeep Grand Cherokee, en einn bílanna er Huyndai Tucson.
Rúnar segir Cherokee-jeppana vera breytta bíla sem hafi verið leigðir út í gegnum Iceland4x4, en rekstur bílaleigunnar er undir tveimur vörumerkjum. Annars vegar er það íslenskt vörumerki, Iceland4x4, og hins vegar er fyrirtækið með sérleyfi fyrir alþjóðlega bílaleigu, Green Motion. Bílaflotinn er hins vegar sameiginlegur, en fyrirtækið á um það bil 600 bílaleigubíla.