„Margt starfsfólk hefur komið til mín vegna framgöngu borgarfulltrúa,“ segir Stefán Eiríksson borgarritari í samtali við mbl.is. Hann skrifaði pistil í lokaðan hóp starfsmanna Reykjavíkur á Facebook í dag þar sem hann segir fáeina borgarfulltrúa ítrekað hafa vænt starfsfólk borgarinnar um óheiðarleika. RÚV greindi fyrst frá málinu í dag.
„Þeir eru sem betur fer fáir, en þeir eru háværir,“ segir Stefán, sem hyggst ekki nafngreina umrædda borgarfulltrúa opinberlega. „Þær athugasemdir sem fram hafa komið fara í sinn farveg.“
Í færslunni segir hann að gert hafi verið lítið úr störfum starfsfólks Reykjavíkurborgar, hæðst hafi verið að verkefnum þess, það vænt um óheiðarleika og að hafa í störfum sínum einhvern annan tilgang en að sinna hverju því verkefni sem því hefði verið falið af fagmennsku og heiðarleika.
Starfsfólkið hafi hvorki vettvang né tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð sér þegar að því sé sótt í pólitískum tilgangi.
„Það hefur til þessa getað treyst á heiðarleika þess ágæta fólks sem sóst hefur eftir pólitískum áhrifum innan borgarinnar og að við öll sem störfum í þágu borgarinnar gerum það til að þjóna íbúum hennar eins og best verður á kosið. Jafnframt hefur verið hægt að treysta því að athugasemdir og gagnrýni á okkar störf, sem að sjálfsögðu á rétt á sér, hafi verið sett fram á sanngjarnan og uppbyggilegan hátt. Nú blasir hins vegar ný staða við, þar sem fáir borgarfulltrúar eitra starfsumhverfi starfsfólks Reykjavíkurborgar með fordæmalausri hegðun, atferli og framgöngu eins og að framan greinir,“ skrifar Stefán.