Eygló hreppti verðlaunin

Eygló Harðardóttir og Leifur Ýmir Eyjólfsson tóku við verðlaununum í …
Eygló Harðardóttir og Leifur Ýmir Eyjólfsson tóku við verðlaununum í Iðnó í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eygló Harðardóttir myndlistarkona hlaut í gærkvöldi Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir árið 2018 og voru þau afhent við hátíðlega athöfn í Iðnó. Verðlaunin hlaut hún fyrir sýninguna Annað rými sem sett var upp í Nýlistasafninu. Hlaut Eygló eina milljón króna í verðlaun.

Þá hreppti myndlistarmaðurinn Leifur Ýmir Eyjólfsson hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Handrit sem sjá má í D-sal Listasafns Reykjavíkur-Hafnarhúss. Leifur fékk 500 þúsund krónur.

Fjórir listamenn voru í forvali til viðurkenningarinnar Myndlistarmaður ársins, auk Eyglóar þau Guðmundur Thoroddsen, fyrir sýninguna Snip Snap Snubbur í Hafnarborg, Hekla Dögg Jónsdóttir fyrir Evolvement í Kling & Bang, og Steinunn Gunnlaugsdóttir fyrir útilistaverkið Litlu hafpulsuna, sem sett var upp í Reykjavíkurtjörn í tengslum við sýninguna „Cycle Music & Art – Þjóð meðal þjóða.“

Í forvali til hvatningarverðlaunanna voru auk Leifs Ýmis þau Auður Ómarsdóttir fyrir sýninguna Stöngin inn í Kling & Bang, og Fritz Hendrik fyrir Draumaregluna, sem einnig var sett upp Kling & Bang.

Snýst um virðingu myndlistar

Íslensku myndlistarverðlaunin voru fyrst afhent í fyrra. Myndlistarráð stendur að verðlaununum sem hafa þann tilgang að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi. Í umsögn dómnefndar um hina fallegu sýningu Annað rými sem Eygló hlaut verðlaunin fyrir, segir að með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, en unnin í viðkvæman efnivið, hafi listakonan opnað „fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju. Eygló virðist umhugað um að áhorfendur verka hennar skynji að ekkert eitt svar sé rétt, að allar víddir hafi sama vægi og að upplifun þeirra geti verið persónuleg og án endastöðvar“. Pappír var meginefni verkanna.

Eygló segir verðlaunin hafa komið sér á óvart enda sé það svo langt frá vinnu sinni við að móta sýningar að hugsa um formlegar viðurkenningar. „En auðvitað hefur þetta góð áhrif. Þegar sýningum lýkur er verkunum pakkað aftur niður í myrkur en með tilnefningunum beinist kastljós aftur að öllum þessum sýningum og það er ánægjulegt, og að þær veki umtal. Ég held að öll þessi verk hafi gott af umræðunni. En auðvitað er þetta mikill heiður og ég er mjög ánægð.“

Þegar spurt er um skoðun hennar á verðlaunum sem þessum fyrir myndlist, þá segist hún líta á þau sem mikilvægt framlag til umræðunnar í samfélaginu. „Þetta er ekki keppnisíþrótt og ég hefði verið ánægð með að sjá verðlaunin fara til allra hinna tilnefndu. Þetta snýst ekki um persónur heldur myndlistina í samfélaginu, um virðingu hennar og um sýningarnar.“ Verðlaun séu veitt í öðrum listgreinum og eigi vitaskuld einnig að vera veitt í myndlistargeiranum.

Þegar spurt er hvernig verðlaunaféð muni nýtast segir hún peninga og tíma vera samofna hjá flestum myndlistarmönnum. „Peningur er tími og ég get unnið!“ Og hún segir þrjú sýningarverkefni í farvatninu, öll fyrir norðan: í Safnasafninu í Eyjafirði, í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og í verksmiðjunni á Hjalteyri.

„Er mjög hvetjandi“

Á sýningunni Handrit í Hafnarhúsinu hefur Leifur Ýmir raðað á hillur sem ná upp í loft leirplötum sem hann hefur brennt og skrifað á tilfallandi orð og setningar. „Saman mynda leirtöflurnar handrit, bók, sem gengið er inn í. Leirinn minnir á forgengileika tungumálsins, sem við mótum og brjótum að vild, rétt eins og efniviðinn,“ segir í umsögn dómnefndar sem segir Leifi takast með „eftirminnilegum hætti að samþætta inntak og efnivið...“

„Þetta er mjög hvetjandi,“ segir Leifur um verðlaunin. Hann kveðst hafa verið að undirbúa verkfallsverk sem gjörning „en nú get ég ekki farið í verkfall, þetta er svo hvetjandi að ég verð að halda áfram!“

Hann segir þetta vera afar ánægjuleg viðbrögð eftir alla þá miklu vinnu sem fór í sýninguna Handrit. „Það var mikil törn en það er gaman að hafa mikið að gera. Það er líka ávanabindandi en nú ætla ég aðeins að anda,“ segir hann og hyggst leggjast í rannsóknir. Hann fékk listamannalaun í fyrsta skipti, þrjá mánuði, og hyggst nota tímann vel. En hvað gerir Leifur Ýmir við verðlaunaféð?

„Það fer í það að lifa og halda áfram. Það býr til tíma fyrir mig til að sinna listinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert