Eygló hreppti verðlaunin

Eygló Harðardóttir og Leifur Ýmir Eyjólfsson tóku við verðlaununum í …
Eygló Harðardóttir og Leifur Ýmir Eyjólfsson tóku við verðlaununum í Iðnó í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eygló Harðardótt­ir mynd­list­ar­kona hlaut í gær­kvöldi Íslensku mynd­list­ar­verðlaun­in fyr­ir árið 2018 og voru þau af­hent við hátíðlega at­höfn í Iðnó. Verðlaun­in hlaut hún fyr­ir sýn­ing­una Annað rými sem sett var upp í Ný­l­ista­safn­inu. Hlaut Eygló eina millj­ón króna í verðlaun.

Þá hreppti mynd­list­armaður­inn Leif­ur Ýmir Eyj­ólfs­son hvatn­ing­ar­verðlaun árs­ins fyr­ir sýn­ing­una Hand­rit sem sjá má í D-sal Lista­safns Reykja­vík­ur-Hafn­ar­húss. Leif­ur fékk 500 þúsund krón­ur.

Fjór­ir lista­menn voru í for­vali til viður­kenn­ing­ar­inn­ar Mynd­list­armaður árs­ins, auk Eygló­ar þau Guðmund­ur Thorodd­sen, fyr­ir sýn­ing­una Snip Snap Snubb­ur í Hafn­ar­borg, Hekla Dögg Jóns­dótt­ir fyr­ir Evolvement í Kling & Bang, og Stein­unn Gunn­laugs­dótt­ir fyr­ir útil­ista­verkið Litlu hafpuls­una, sem sett var upp í Reykja­vík­urtjörn í tengsl­um við sýn­ing­una „Cycle Music & Art – Þjóð meðal þjóða.“

Í for­vali til hvatn­ing­ar­verðlaun­anna voru auk Leifs Ýmis þau Auður Ómars­dótt­ir fyr­ir sýn­ing­una Stöng­in inn í Kling & Bang, og Fritz Hendrik fyr­ir Draumaregl­una, sem einnig var sett upp Kling & Bang.

Snýst um virðingu mynd­list­ar

Íslensku mynd­list­ar­verðlaun­in voru fyrst af­hent í fyrra. Mynd­list­ar­ráð stend­ur að verðlaun­un­um sem hafa þann til­gang að vekja at­hygli á því sem vel er gert á sviði mynd­list­ar á Íslandi. Í um­sögn dóm­nefnd­ar um hina fal­legu sýn­ingu Annað rými sem Eygló hlaut verðlaun­in fyr­ir, seg­ir að með verk­um sem í senn voru fín­leg og stór­karla­leg, en unn­in í viðkvæm­an efnivið, hafi lista­kon­an opnað „fyr­ir gátt­ir sem áhorf­and­inn gat smeygt sér inn fyr­ir og aukið skynj­un sína og næmi á kostnað hinn­ar vana­bundnu rök­hyggju. Eygló virðist um­hugað um að áhorf­end­ur verka henn­ar skynji að ekk­ert eitt svar sé rétt, að all­ar vídd­ir hafi sama vægi og að upp­lif­un þeirra geti verið per­sónu­leg og án enda­stöðvar“. Papp­ír var meg­in­efni verk­anna.

Eygló seg­ir verðlaun­in hafa komið sér á óvart enda sé það svo langt frá vinnu sinni við að móta sýn­ing­ar að hugsa um form­leg­ar viður­kenn­ing­ar. „En auðvitað hef­ur þetta góð áhrif. Þegar sýn­ing­um lýk­ur er verk­un­um pakkað aft­ur niður í myrk­ur en með til­nefn­ing­un­um bein­ist kast­ljós aft­ur að öll­um þess­um sýn­ing­um og það er ánægju­legt, og að þær veki um­tal. Ég held að öll þessi verk hafi gott af umræðunni. En auðvitað er þetta mik­ill heiður og ég er mjög ánægð.“

Þegar spurt er um skoðun henn­ar á verðlaun­um sem þess­um fyr­ir mynd­list, þá seg­ist hún líta á þau sem mik­il­vægt fram­lag til umræðunn­ar í sam­fé­lag­inu. „Þetta er ekki keppnisíþrótt og ég hefði verið ánægð með að sjá verðlaun­in fara til allra hinna til­nefndu. Þetta snýst ekki um per­són­ur held­ur mynd­list­ina í sam­fé­lag­inu, um virðingu henn­ar og um sýn­ing­arn­ar.“ Verðlaun séu veitt í öðrum list­grein­um og eigi vita­skuld einnig að vera veitt í mynd­list­ar­geir­an­um.

Þegar spurt er hvernig verðlauna­féð muni nýt­ast seg­ir hún pen­inga og tíma vera samofna hjá flest­um mynd­list­ar­mönn­um. „Pen­ing­ur er tími og ég get unnið!“ Og hún seg­ir þrjú sýn­ing­ar­verk­efni í far­vatn­inu, öll fyr­ir norðan: í Safna­safn­inu í Eyjaf­irði, í Alþýðuhús­inu á Sigluf­irði og í verk­smiðjunni á Hjalteyri.

„Er mjög hvetj­andi“

Á sýn­ing­unni Hand­rit í Hafn­ar­hús­inu hef­ur Leif­ur Ýmir raðað á hill­ur sem ná upp í loft leir­plöt­um sem hann hef­ur brennt og skrifað á til­fallandi orð og setn­ing­ar. „Sam­an mynda leirtöfl­urn­ar hand­rit, bók, sem gengið er inn í. Leir­inn minn­ir á for­gengi­leika tungu­máls­ins, sem við mót­um og brjót­um að vild, rétt eins og efniviðinn,“ seg­ir í um­sögn dóm­nefnd­ar sem seg­ir Leifi tak­ast með „eft­ir­minni­leg­um hætti að samþætta inn­tak og efnivið...“

„Þetta er mjög hvetj­andi,“ seg­ir Leif­ur um verðlaun­in. Hann kveðst hafa verið að und­ir­búa verk­falls­verk sem gjörn­ing „en nú get ég ekki farið í verk­fall, þetta er svo hvetj­andi að ég verð að halda áfram!“

Hann seg­ir þetta vera afar ánægju­leg viðbrögð eft­ir alla þá miklu vinnu sem fór í sýn­ing­una Hand­rit. „Það var mik­il törn en það er gam­an að hafa mikið að gera. Það er líka ávana­bind­andi en nú ætla ég aðeins að anda,“ seg­ir hann og hyggst leggj­ast í rann­sókn­ir. Hann fékk lista­manna­laun í fyrsta skipti, þrjá mánuði, og hyggst nota tím­ann vel. En hvað ger­ir Leif­ur Ýmir við verðlauna­féð?

„Það fer í það að lifa og halda áfram. Það býr til tíma fyr­ir mig til að sinna list­inni.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert