Forskot Airbnb aukið með verkföllum

Talið er að verkfallsaðgerðir Eflingar munu geta haft skaðleg áhrif …
Talið er að verkfallsaðgerðir Eflingar munu geta haft skaðleg áhrif á hótelgeiran sem er í stífri samkeppni við aðila í skuggahagkerfinu. mbl.is/Hjörtur

Áhyggjur af afleiðingum verkfallsaðgerða Eflingar fara vaxandi innan gistingageirans, bæði hvað varðar orðspor Íslands sem áfangastaðar og samkeppnisstöðu fyrirtækja inna geirans gagnvart skuggahagkerfinu. Þetta kemur fram í samtali Kristófers Oliverssonar, formanns Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, við mbl.is.

Verkfallsaðgerðir sem Efling hefur boðað 8. mars munu ná til allra gististaða innan sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins auk Grímsnes- og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar og sveitarfélagsins Ölfuss.

„Nú tilheyrir um helmingur af þeim herbergjunum sem  boðin eru til sölu í Reykjavík því sem við höfum kallað skuggahagkerfi, þetta er ýmist leyfislaus eða svört starfsemi í íbúðahverfum. Verkföll snerta ekkert þennan geira,“ segir Kristófer.

Óvissa skekkir samkeppnisstöðu

Hann bendir á að hótelin sjái nú fram á verkföll í skugga mikillar óvissu í flugi, þreföldun gistináttaskattar og hækkandi húsnæðiskostnaðar meðal annars vegna mikilla hækkana á fasteignagjöldum.

„Engin önnur atvinnugrein býr við það að helmingur framboðinnar þjónustu sé ólöglegur. Með því að verkalýðsfélögin beini spjótum sínum gegn löglegum fyrirtækjum með þessum hætti er enn aukið á forskot þeirra starfa undir merkjum Airbnb og slíkra fyrirtækja,“ segir hann.

Fréttir af lokunum fljótar að berast

Verkfallsaðgerðir geta haft keðjuverkandi áhrif og ef við þurfum að loka hótelum, munu fréttir af slíku berast fljótt út fyrir landsteinana, að sögn Kristófers.

„Í nútímasamfélagi berast fréttir fljótt með Twitter, Instagram og öðrum samfélagsmiðla. Þetta er allt annað umhverfi en við vorum í fyrir einhverjum áratugum síðan. Núna erum við farin að senda mjög skaðleg skilaboð um leið út um allan heim,“ bætir hann við. „Það getur haft afdrifarík varanleg áhrif á ferðaþjónustuna á viðkvæmum tímum eins og nú.“

Spurður hvort fyrirtækin hafi gert einhverjar ráðstafanir vegna stöðu mála, svarar hann því játandi. „Við ætlum auðvitað að gera það sem við getum til þess að minnka skaðann. Við hljótum að vona að samningar náist á þeim tveimur vikum sem eru til stefnu fram að verkfalli.“

Frá stofnfundi Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu í fyrra. …
Frá stofnfundi Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu í fyrra. Kristófer Oliversson er fyrsti formaður þess. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert