Hreyfing er komin á atvinnulíf og fasteignamarkað á Blönduósi eftir uppbyggingu gagnavers á svæðinu. Er sveitarfélagið nú að úthluta lóðum fyrir íbúðir eftir langvarandi kyrrstöðu á markaðnum.
Að sögn Valdimars O. Hermannssonar sveitarstjóra er bjartsýni nú ríkjandi í samfélaginu og segir hann framkvæmdina hafa verið hvalreka fyrir verktaka og þetta 940 manna samfélag.
Þannig má til að mynda nefna að fyrsta einbýlishúsið sem rís á Blönduósi í tíu ár var byggt í fyrra, að því er fram kemur um áhrif gagnavers á Blönduósi í Morgunblaðinu í dag.