Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákveðið að taka ekki kæru Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, vegna borgarstjórnarkosninga 2018 til efnislegrar meðferðar. Er málinu því vísað frá, en Vigdís hyggst halda áfram með málið.
Í kjölfar fundar borgarráðs 14. febrúar um úrskurð Persónuverndar um notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, ákvað borgarfulltrúi Miðflokksins að kæra framkvæmd kosninganna til sýslumanns.
Í dag segir Vigdís frá því á Facebook-síðu sinni að rétt fyrir klukkan fimm í gær hafi henni borist ákvörðun sýslumanns um að vísa málinu frá. Bendir hún á að fram komi í bréfinu að ákvörðun sýslumanns sé kæranleg til dómsmálaráðuneytisins.
„Ég hef þegar ákveðið að kæra ákvörðunina því ég ætla að tæma allar kæruleiðir innanlands áður en frekari ákvarðanir eru teknar, því megið þið treysta,“ segir Vigdís.