Stefán þurfi að skýra skrif sín betur

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Almennt hlýtur það að teljast óheppilegt að kjörnir fulltrúar geri störf starfsmanna sveitarfélags að umtalsefni í opinberri umræðu, sérstaklega ef ummælin fela í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess. Ganga má að því vísu að slík ummæli á opinberum vettvangi séu slæm fyrir viðkomandi starfsmenn og hafi áhrif í þá átt að veikja tiltrú almennra borgara á starfsemi sveitarfélagsins. Slík framkoma getur falið í sér brot á 1. mgr. 3. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar sem hljóðar svo: „Kjörnir fulltrúar gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Þeir sýna störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar tilhlýðilega virðingu.“.“

Þetta segir, auk annars, í áliti siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. desember síðastliðnum. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að í þessu áliti, sem forsætisnefnd borgarinnar óskaði eftir, felist ekki áminning eða aðfinnsla við framgöngu einstaka borgarfulltrúa í Reykjavík, eins og Stefán Eiríksson borgarritari skrifaði inn á Facebook-síðu starfsmanna Reykjavíkurborgar í gær.

Þar skrifaði Stefán að „fáir borgarfulltrúar“ hafi eitrað starfsumhverfi starfsfólks Reykjavíkurborgar með „fordæmalausri hegðun, atferli og framgöngu“ og að engin áhrif hefði haft að siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði komið með „ábendingar til hlutaðeigandi“ þess efnis að „framganga af þessum tagi brjóti gegn þeim þeim siðareglum sem gilda um kjörna fulltrúa“.

„Siðanefnd Sambandsins fjallar ekki um einstök mál heldur gefur almennar leiðbeiningar,“ segir Eyþór. „Það er vísað til þess að mál geti varðað siðareglur en það er náttúrlega ekki það sama og að þau varði siðareglur,“ bætir hann við, en eins og kom fram í gærkvöldi hafa bæði Eyþór og Vigdís Hauksdóttir oddviti Miðflokksins óskað eftir því að borgarritari skýri mál sitt frekar.

„Það sem er mjög mikilvægt að hafa í huga er að þegar það er verið að fjalla um það sem er gert í borginni, eins og þegar borgarfulltrúi gagnrýnir það að það hafi verið greitt ólöglega fyrir verk, eins og var gert í bragganum, þar sem voru greiddar út milljónir án heimildar, þá er það náttúrlega einhver starfsmaður sem gerir það. Það er bara þannig, það er fólk á bak við verkin og við getum ekki hætt að benda á það sem er ekki í lagi,“ segir Eyþór.

Stefán noti harkalegt orðalag

Hann segir að Stefán hafi í skrifum sínum til starfsmanna borgarinnar notað „harkalegt orðalag“ um ótilgreinda borgarfulltrúa, sem hann sjálfur sem borgarfulltrúi „myndi aldrei nota“ um starfsfólk Reykjavíkurborgar.

„Hann er að gagnrýna orðalag, en notar orðalag sem er einmitt ekki bara meiðandi heldur til einhvers sem er ekki nafngreindur,“ segir Eyþór og vísar til þess sem Stefán skrifaði í skilaboðum sínum til starfsmanna borgarinnar um það hvernig hægt væri að „stöðva tuddann á skólalóðinni“ í þeirri merkingu að hluti borgarfulltrúa væru tuddarnir.

Eyþór segir að það hefði verið „miklu heiðarlegra“ ef Stefán hefði nafngreint þá borgarfulltrúa sem hann var að ræða um í skrifum sínum til starfsmanna borgarinnar og hvaða atvika hann sé að vísa til. Annars liggi allir undir grun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert