„Það eina sem ég get upplýst um er að þetta beinist að stórum fyrirtækjum í ferðaþjónustunni,“ segir Ragnar Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is spurður um aðgerðaáætlun félagsins komi til átaka á vinnumarkaði. Áætlunin var tekin fyrir á fundi stjórnar VR, sem jafnframt er samninganefnd félagsins, í hádeginu og segir Ragnar engan ágreining um málið.
„Það var enginn ágreiningur í stjórninni um stöðuna sem upp er komin,“ segir Ragnar spurður um niðurstöðu fundarins en á honum var verkfallssjóður VR virkjaður að hans sögn og sérstök verkfallsnefnd hefur verið skipuð sem mun sjá um skipulagningu og framkvæmd verkfalla. Drög að aðgerðaáætlun VR voru enn fremur samþykkt á fundinum.
„Þar er tilgreint hvaða fyrirtæki verður byrjað á og tillaga að dagsetningum og fjölda daga sem verður síðan útfært nánar um helgina með okkar bandamönnum. Síðan verður það formlega lagt til samþykktar fyrir stjórn á mánudaginn og eftir það getum við farið í atkvæðagreiðslur á þeim vinnustöðum sem um ræðir og í framhaldinu af því þessum aðgerðapakka hrint af stað.“
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir félagið líta það grafalvarlegum augum að verkalýðshreyfingin ætli að stilla ferðaþjónustufyrirtækjum upp sem skotmörkum í slíkum aðgerðum. „Þetta eru ekkert annað en beinar árásir á grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og getur valdið öllu samfélaginu miklu tjóni.“
Jóhannes segir að árásir á ferðaþjónustuna valdi ekki aðeins fyrirtækjum sem starfa á því sviði skaða heldur einnig fyrirtækjum í öðrum greinum og starfsmönnum þeirra vegna þess að virðiskeðja ferðaþjónustunnar sé svo víðtæk.
„Áföll í ferðaþjónustunni hafa svo mikil áhrif út frá sér, vegna þess hversu stór hún er og vegna þess hvað hún snertir víða fleti í samfélaginu. Það er fullt af fyrirtækjum í landinu þar sem fólk er ekki í beinni snertingu við ferðamenn alla daga en byggja engu að síður tilveru sína á ferðaþjónustunni.“