Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru þegar farin að fá fyrirspurnir frá samstarfsaðilum sínum vegna boðaðra verkfallsaðgerða, segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is.
Hann segir fréttir af stöðunni á Íslandi hafa ratað út fyrir landsteinana og tjón hafi þegar orðið vegna þessa.
Í gær voru tilkynntar fyrirætlanir Eflingar um verkfall ræstingafólks á alþjóðlegum degi kvenna, 8. mars. Aðgerðunum er sérstaklega beint að þrifum, hreingerningum og frágangi herbergja og annarrar gistiaðstöðu.
Verkfall Eflingar mun ná til allra gististaða innan sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins auk Grímsnes- og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar og sveitarfélagsins Ölfuss.
Spurður hvort fyrirtæki hafi fundið fyrir fækkun í bókunum eða borist afbókanir vegna boðaðra verkfalla, segist Jóhannes ekki hafa fengið neinar tölur um það að svo stöddu en bendir á að veruleg hætta sé á frekara tjóni á þessum árstíma. „Þetta er aðalbókunartíminn fyrir sumarmánuðina.“
Þá segist framkvæmdastjórinn hafa áhyggjur af því að verkfallsaðgerðir geti haft „gríðarlega neikvæð áhrif“. Ekki síst ef þær valdi því að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar bíði hnekki sem muni hafa áhrif fram í tímann. „Fólk getur farið á aðra staði en til Íslands að skoða norðurljós,“ bætir hann við.