Andlát: Einar Sigurbjörnsson

Einar Sigurbjörnsson.
Einar Sigurbjörnsson. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Einar Sigurbjörnsson, fyrrverandi prófessor í guðfræði, lést á Vífilsstöðum 20. febrúar síðastliðinn á sjötugasta og fimmta aldursári.

Einar fæddist í Reykjavík 6. maí 1944, foreldrar hans voru Sigurbjörn Einarsson biskup og eiginkona hans Magnea Þorkelsdóttir.

Einar lauk stúdentsprófi frá MR árið 1964, guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1969 og hann varði doktorsritgerð sína, Ministry within the people of God, í trúfræði við Guðfræðideild Háskólans í Lundi í Svíþjóð 1974.

Hann var sóknarprestur á Ólafsfirði 1969 til 1970, á Hálsi í Fnjóskadal frá 1974 til 1975 og á Reynivöllum í Kjós 1975 til 1978. Einar var stundakennari við Guðfræðideild HÍ 1975 til 1978 og prófessor í trúfræði frá 1978 til 2014. Hann var forseti Guðfræðideildar 1981 til 1985, 1990 til 1993 og 2003 til 2006 og sat í stjórn Guðfræðistofnunar HÍ og var formaður hennar um tíma.

Þá var hann varaforseti Háskólaráðs 1983 til 1985 og formaður áfrýjunar- og sáttanefndar HÍ frá 1991 til 1996.

Meðal annarra trúnaðarstarfa sem Einar gegndi má nefna að hann var formaður handbókarnefndar Þjóðkirkjunnar 1975 til 1997 og sat í djáknanefnd Þjóðkirkjunnar 1990 til 1997. Hann sat í öðrum nefndum á vegum Þjóðkirkjunnar, m.a. þýðingarnefnd Biblíuútgáfunnar 2007, og var formaður sálmabókarnefndar hennar frá 2007 til æviloka.

Þá sat hann í Trúar- og skipulagsmálanefnd Alkirkjuráðsins sem fulltrúi norrænu kirknanna frá 1984 til 1991 og norrænum nefndum um rannsóknir á guðfræði prestvígslunnar og rannsóknir í sálmafræði.

Hann var fulltrúi HÍ og Þjóðkirkjunnar á mörgum ráðstefnum erlendis.

Meðal bóka sem Einar ritaði eru Orðið og trúin, sem kom út 1976, Kirkjan játar, 1980, Credo, kristin trúfræði 1989, Ljós í heimi, 1996 og Embættisgjörð, guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð, 1996 og 2012.

Hann var í ritstjórn ýmissa fræðirita og ritaði fjölda greinar í blöð og tímarit. Einar fékk viðurkenningu Hagþenkis fyrir fræðistörf árið 1990. Hann var félagi í Vísindafélagi Norðmanna og í Vísindafélagi Íslendinga og formaður í nokkur ár. Þá var hann formaður Safnaðarfélags Dómkirkjunnar í Reykjavík um nokkurt skeið.

Eftirlifandi eiginkona Einars er Guðrún Edda Gunnarsdóttir, náttúrufræðingur og fyrrverandi sóknarprestur í Þingeyrarprestakalli. Þau eignuðust þrjú börn, Sigurbjörn, Guðnýju og Magneu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert