Benda hvorir á aðra

Samningafundur hjá Sáttasemjara.
Samningafundur hjá Sáttasemjara. mbl.is/​Hari

Samtök atvinnulífsins og Eflingu greinir á um hvað felist í kröfugerð félagsins, en samtökin halda því fram að hún feli í sér allt frá 59% og upp í 82% hækkun á mánaðarlaunum eftir launaflokkum og aldursþrepi, þannig að núgildandi byrjunarlaun í lægsta þrepi færu úr 266.735 krónum í 425.000 krónur.

Hæstu laun í hæsta aldursþrepi myndu hins vegar hækka um 83% samkvæmt útreikningum SA á kröfugerðinni.

Forsvarsmenn Eflingar segja hins vegar að krafa félagsins og Starfsgreinasambandsins hafi verið um flata krónutöluhækkun ofan á greidd grunnlaun, sem næmi 42.000 krónum á hverju ári samningstímans, sem yrði þrjú ár. Samkvæmt því myndi einstaklingur með 300.000 króna laun á mánuði vera með 425.001 krónu í uppsöfnuð laun eftir þrjú ár, eða sem nemur samtals 41,7% hækkun á þeim þremur árum. Þá heldur forysta Eflingar því fram að hækkun meðallauna yrði um 6,5% á ári og hækkun heildarlauna að öðru óbreyttu 5,4% á ári.

Segir félagið því að meðalhækkun launa samkvæmt kröfugerð sinni yrði á bilinu 16,2% til 19,4%, en ekki í þeim tugum prósenta sem SA hafi reiknað út.

Engir þröskuldar á þátttöku

Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun Eflingar hefst á mánudaginn. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsins, sagði við Morgunblaðið í dag að allir félagsmenn sem ynnu samkvæmt samningi Eflingar um störf í hótel- og veitingageiranum yrðu á kjörskrá. Hins vegar tæki verkfallsboðunin einungis til þeirra sem störfuðu við þrif og hreingerningar á hótelum og gistiheimilum. Enginn þátttökuþröskuldur væri í atkvæðagreiðslunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert