Baldur Arnarson
Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands og fv. hagfræðingur verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, segir grundvallarbreytingu hafa orðið á kjarabaráttunni.
Sú breyting felist í sem stystu máli í því að málin séu ekki lengur rædd út frá grundvallarforsendum í efnahagsmálum heldur sé búið að ramma inn umræðuna út frá orðræðu uppgjörs og þjóðfélagsátaka.
„Í vestrænum löndum tengjast kjaraviðræður umfjöllun um hagstjórn. Sú umræða snýst um hluti eins og verðbólgu, efnahagsstöðugleika, kaupmátt og atvinnuleysi. Spurt er hvað launþegar gætu fengið út úr samningum og hvað sé til skiptanna. Þessi umræða er slegin út af borðinu hérlendis með fullyrðingum um að stöðugleiki gagnist ekki láglaunafólki, sem er fullkomin firra.
Óstöðugleiki – svo sem við gengisfall krónunnar – hefur verið launafólki mjög dýrkeyptur, enda hefur kaupmáttur launa lækkað í verðbólgu. Þá eru íbúðalán heimilanna að miklu leyti verðtryggð og margir munu tapa miklu í verðbólguskoti,“ segir Ásgeir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Nú séu kröfurnar lagðar fram án kostnaðargreiningar. „Orðræða forystumanna verkalýðshreyfingarinnar er nú á allt öðrum nótum. Hún forðast að ræða tölur og staðreyndir heldur styðst við pólitísk hugtök sem koma málinu varla við. Rætt er um stéttabaráttu,“ segir Ásgeir. Orðræðan beri þannig keim af slagorðum Karl Marx, helsta kenningasmiðs sameignarstefnunnar.