Ekki stendur til að leyfa innflutning á ógerilsneyddum mjólkurafurðum. Þetta kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við yfirlýsingu Bændasamtaka Íslands (BÍ) og fréttum Morgunblaðsins í gær.
Um er að ræða frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um breytingu á lögum um matvæli og lög um dýrasjúkdóma. Þar er kveðið á um afnám núverandi leyfisveitingarkerfis vegna innflutnings á ákveðnum landbúnaðarafurðum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
„Það er ekkert fyrirhugað, í tengslum við þessar boðuðu breytingar, að gera neinar breytingar á núgildandi regluverki um dreifingu og markaðssetningu á ógerilsneyddum mjólkurvörum,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarherra, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Frumvarpið er viðbragð stjórnvalda við tveimur dómum Hæstaréttar Íslands og EFTA-dómstólsins um að núverandi leyfisveitingarkerfi við innflutning á kjöti og krafan um frystingu kjöts brjóti í bága við EES-samninginn.