Vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Portúgals geta íslenskir eftirlaunaþegar flutt lögheimili sitt til Portúgals og fengið greidd eftirlaun frá Íslandi án þess að greiða af þeim skatta, hvorki á Íslandi né í Portúgal.
Alexander G. Edvardsson, sérfræðingur á skatta- og lögfræðisviði KPMG, segir að eftirlaun, leigutekjur af húsnæði og arður séu ekki skattlögð ef viðkomandi hefur flutt lögheimili sitt til Portúgals.
Alexander bendir á að í Portúgal sé greiddur skattur af iðgjöldum í lífeyrissjóði en ekki af eftirlaunagreiðslum. Þessu sé öfugt farið á Íslandi þar sem greiðslur í lífeyrissjóði hér eru ekki skattlagðar en greiddur skattur af eftirlaunum.
Alexander segir aðspurður dæmi um að íslenskir eftirlaunaþegar hafi flutt lögheimili til landa á borð við Portúgal og greiði þar skatta samkvæmt reglum ytra. „Á móti kemur að viðkomandi er fluttur frá Íslandi, hefur ekki lengur búsetu hér og er þar með ekki lengur í velferðar- og heilbrigðiskerfinu á Íslandi,“ segir Alexander. Hann segir aðspurður að réttindi hvað varðar velferðar- og heilbrigðiskerfið á Íslandi endurheimtist á um sex mánuðum við flutning lögheimilis aftur til Íslands.