Langdregið og fyrirsjáanlegt tilhugalíf

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. Ljósmynd/Gummi Thor

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vonar að menn geti farið að einbeita sér að störfum á þinginu nú þegar Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason eru gengnir til liðs við Miðflokkinn.

Hann segir að persónulegar deilur á þinginu komi í veg fyrir að tekist sé á við það sem skipti máli í samfélaginu og telur ekki að aukinn fjöldi þingmanna Miðflokksins eigi eftir að hafa stórtæk áhrif innan Alþingis. „Kannski verða hreinni línur nú þegar þetta mjög svo langdregna og fyrirsjáanlega tilhugalíf er búið.“

Sigurður Ingi var gestur Páls Magnússonar í þættinum Þingvellir á K100 í morgun, þar sem samstarfsmennirnir fóru um víðan völl og ræddu meðal annars Klaustursmálið, samstöðu ríkisstjórnarinnar, fylgisaukningu Framsóknarflokksins í síðustu skoðanakönnun, innflutning á fersku kjöti og veggjöld.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Páll Magnússon eftir útsendingu á K100 …
Sigurður Ingi Jóhannsson og Páll Magnússon eftir útsendingu á K100 í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi

Kjaramálin bar einnig á góma og barst talið meðal annars að launum bankastjóra og hvort ríkið geti ekki brugðist öðruvísi við en með andmælum og hneykslun.

Gengið of langt í að fjarlægja áhrifavaldið

Sigurður Ingi sagði alla hafa verið sammála um að fjarlægja eigi áhrifavald stjórnmálanna frá ríkis- og fjármálafyrirtækjum. Hann sagðist þó ansi hræddur um að gengið hafi verið of langt í þeim efnum, enda berið ríkið alltaf ábyrgðina á ákvörðunum stjórna þrátt fyrir að það komi ekki að þeim með beinum hætti. „Það skortir jafnvægi.“

Ráðherrann segist halda og vona ekki að aukning í fylgi flokks hans sé Klaustursmálinu að þakka, heldur frekar því sem flokkurinn hefur afrekað í ríkisstjórn. Hann segir stuðning felast í því að sjá fylgisaukningu í skoðanakönnunum, en að það sé bara ein mæling sem máli skipti: kosningar.

Þáttinn er hægt að hlýða á í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert