Almenna leigufélagið lýsir því yfir að það muni draga til baka fyrirhugaðar hækkanir leigu sem áttu að koma til framkvæmda á næstu þremur mánuðum. Auk þess að vinna að breytingum á leigusamningum félagsins með það að markmiði að bjóða samninga til lengri tíma en þekkst hefur á almenna markaðnum, þar sem tryggt er húsnæðisöryggi og stöðugra leiguverð.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá VR og Almenna leigufélaginu. VR hafði hótað því að taka allt sitt fé, 4,2 milljarða, úr eignastýringu hjá Kviku banka. Kvika er eigandi fjármálafyrirtækisins Gamma og Almenna leigufélagið er í eigu sjóðs sem er í stýringu hjá Gamma.
VR og Almenna leigufélagið hafa fundað undanfarna daga um framtíð íslensks leigumarkaðar. Fram kemur í yfirlýsingunni að sífellt fleiri vilji sjá leigumarkaðinn sem raunhæfan valkost til lengri tíma með húsnæðisöryggi og verðstöðugleika.
Í tilkynningunni er einnig kallað eftir frekari þátttöku lífeyrissjóða og annarra langtímafjárfesta í fjármögnun leigufélaga sem gæti skapað grundvöll fyrir lægri leigu, stöðugra leiguumhverfi og auknu húsnæðisöryggi leigjenda. „Það er báðum aðilum til hagsbóta – leigjendum og leigusölum - að sterkir innlendir fjárfestar komi að uppbyggingu íslensks leigumarkaðar með langtímahagsmuni leigjenda að leiðarljósi.“
Lengri leigusamningar verða kynntir sérstaklega í byrjun næsta mánaðar.