Dregur fyrirhugaðar hækkanir til baka

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Almenna leigufélagið lýsir því yfir að það muni draga til baka fyrirhugaðar hækkanir leigu sem áttu að koma til framkvæmda á næstu þremur mánuðum. Auk þess að vinna að breytingum á leigusamningum félagsins með það að markmiði að bjóða samninga til lengri tíma en þekkst hefur á almenna markaðnum, þar sem tryggt er húsnæðisöryggi og stöðugra leiguverð. 

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá VR og Almenna leigufélaginu. VR hafði hótað því að taka allt sitt fé, 4,2 milljarða, úr eignastýringu hjá Kviku banka. Kvika er eigandi fjár­mála­fyr­ir­tæk­is­ins Gamma og Al­menna leigu­fé­lagið er í eigu sjóðs sem er í stýringu hjá Gamma.

VR og Almenna leigufélagið hafa fundað undanfarna daga um framtíð íslensks leigumarkaðar. Fram kemur í yfirlýsingunni að sífellt fleiri vilji sjá leigumarkaðinn sem raunhæfan valkost til lengri tíma með húsnæðisöryggi og verðstöðugleika.

Í tilkynningunni er einnig kallað eftir frekari þátttöku lífeyrissjóða og annarra langtímafjárfesta í fjármögnun leigufélaga sem gæti skapað grundvöll fyrir lægri leigu, stöðugra leiguumhverfi og auknu húsnæðisöryggi leigjenda. „Það er báðum aðilum til hagsbóta – leigjendum og leigusölum - að sterkir innlendir fjárfestar komi að uppbyggingu íslensks leigumarkaðar með langtímahagsmuni leigjenda að leiðarljósi.“  

Lengri leigusamningar verða kynntir sérstaklega í byrjun næsta mánaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert