„Það bendir allt til þess að þróunin haldist svipuð áfram. Við höfum verið að sjá fækkun síðustu ár og eru margþættar ástæður fyrir því.“
Þetta segir Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, um umtalsverða fækkun námsmanna sem taka námslán meðan á námi stendur.
Að hennar sögn má rekja þróunina til ýmissa þátta, þar á meðal húsnæðismála. „Nemendur búa lengur heima og svo er atvinnuástandið gott. Margir eru í hlutastarfi með námi og geta sleppt því að taka námslán,“ segir Hrafnhildur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Í nýútgefinni ársskýrslu LÍN fyrir árið 2017 kemur fram að námsmönnum á námslánum hafi fækkað um 19% milli ára, þar af 21% á Íslandi en 11% erlendis. Þá fækkar umsækjendum um námslán fimmta árið í röð.