Hugmyndir fólks um eigin tónlistarhæfileika eru ekki alltaf í samræmi við raunveruleikann. Nú gefst fólki kostur á að kanna eigin tónlistarhæfileika í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sem á að varpa ljósi á erfðabreytileika sem hafa áhrif á tóneyra og taktvísi og tengsl við raskanir á borð við lesblindu, málþroskaraskanir og jafnvel athyglisbrest.
Málvísindakonan Rósa Signý Gísladóttir hefur umsjón með rannsókninni en hægt er að taka prófið á toneyra.is. Rósa segir rannsóknina vera lið í að skoða heilastarfsemi en margt er á huldu um hvernig mannshugurinn leysir flókin verkefni á borð við tónlist og tungumál.
Í myndskeiðinu er rætt við Rósu Signý um rannsóknina.
Þetta er í fyrsta sinn sem ÍE framkvæmir slíka rannsókn alfarið með rafrænum hætti en nauðsynlegt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Hægt er að deila niðurstöðunum á samfélagsmiðlum og á einungis nokkrum dögum hafa á þriðja þúsund Íslendinga tekið prófið án þess að það hafi verið kynnt mikið sem gefur fyrirtækinu góð fyrirheit um þátttöku.
Mikilvægt er að fá fólk til að taka þátt sem hefur litla tónlistarhæfileika til að niðurstöðurnar verði sem bestar. „Þetta eru tvær raskanir sem við einblínum á, það er annars vegar tónblinda þar sem fólk á erfitt með að skynja tónhæð og svo taktblinda þar sem fólk á erfitt með að skynja takt í tónlist,“ segir Rósa. Taktblinduna segir hún sérstaklega sýna fylgni við aðrar taugaþroskaraskanir.
„Við vitum til dæmis að börn og fullorðnir sem eiga erfitt með að klappa í takt eru oft með verri hljóðkerfisvitund, það er verri tilfinningu fyrir málhljóðunum og eiga oft í erfiðleikum með lestur.“