„Fyrst og fremst er ég ánægður fyrir hönd okkar félagsmanna og þeirra sem voru að fá þessar boðuðu hækkanir,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Almenna leigufélagið hefur dregið til baka fyrirhugaðir hækkanir leigu sem áttu að koma til framkvæmda á næstu þremur mánuðum.
„Þetta er mjög ánægjuleg lending. Í byrjun mars verður þessu fólki boðið upp á möguleika á leigusamningum til mun lengri tíma en áður hafa þekkst á íslenskum leigumarkaði,“ segir Ragnar.
Greint var frá þessu í sameiginlegri yfirlýsingu VR og Almenna leigufélagsins síðdegis. Þar kom enn fremur fram að unnið yrði að breytingum á leigusamningum félagsins með það að markmiði að bjóða samninga til lengri tíma en þekkst hefur á almenna markaðnum, þar sem tryggt er húsnæðisöryggi og stöðugra leiguverð.
VR hafði hótað því að taka allt sitt fé, 4,2 milljarða, úr eignastýringu hjá Kviku banka. Kvika er eigandi fjármálafyrirtækisins Gamma og Almenna leigufélagið er í eigu sjóðs sem er í stýringu hjá Gamma.
Ragnar segir að grunnforsenda þess að hér geti byggst upp heilbrigður leigumarkaður sé að fólki sé tryggt framfærslulegt öryggi og að búsetuöryggi sé tryggt. „Fólk er kannski að gera leigusamning í einhverju hverfi þar sem börnin þeirra sækja leik- og grunnskóla og það þarf svo alltaf að hafa þetta búsetuóöryggi hangandi yfir sér,“ segir Ragnar og bendir á að fjölskyldur þurfi jafnvel að flytja hverfa á milli:
„Það er orðið mjög alvarlegt lýðheilsumál ef börn ná ekki að skjóta niður félagslegum rótum. Sömuleiðis er mikið álag sem fylgir því að vera í stöðugum búferlaflutningum. Þetta er gríðarlega stórt og mikið hagsmunamál fyrir viðskiptavini leigufélaganna. Það er ofboðslega ánægjulegt að við skulum hafa náð þessari lendingu og fundið fyrir þessum vilja hjá Almenna leigufélaginu að hafa farið í þetta með okkur.“
Að Ragnars mati sýnir þetta að ýmislegt sé hægt ef fólk talar saman. VR ætli að leggja sitt af mörkum til að hér verði byggður upp heilbrigðari húsnæðismarkaður og eru til að vinna að því með hverjum þeim sem hefur áhuga.