Sólveig Anna: „Ekki við öðru að búast“

Sólveig Anna Jónsdóttir er á ferðinni með kosningabíl Eflingar í …
Sólveig Anna Jónsdóttir er á ferðinni með kosningabíl Eflingar í dag, en atkvæðagreiðslan sem SA vill að verði stöðvuð nú þegar fer bæði fram rafrænt og í þessum bíl. mbl.is/Hari

„Mín viðbrögð eru þau að við bjuggumst kannski alveg við þessu, en það er leiðinlegt fyrir Samtök atvinnulífsins að þau skuli ætla að bregðast svona við og reyna að kremja upprisu láglaunakvenna um leið og hún hefst. En það var ekki við öðru að búast,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um áskorun Samtaka atvinnulífsins.

Samtökin atvinnulífsins segja atkvæðagreiðslu Eflingar um verkfallsaðgerðir sem áætlaðar eru 8. mars vera ólögmæta og skora á stéttarfélagið að stöðva hana nú þegar, ellegar fari SA í félagsdómsmál við stéttarfélagið.

Röksemdir SA eru þær ólögmætt sé að að láta fleiri félagsmenn en þá sem verkfallsaðgerðirnar taki til greiða atkvæði um aðgerðirnar.

Sólveig Anna var fyrir utan Grand hótel með kosningabílinn er mbl.is náði af henni tali og hún segir að við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar hafi Efling ráðfært sig við lögfræðinga Alþýðusambands Íslands.

„Við erum búin að vanda okkur mjög, við erum búin að ráðfæra okkur í allri ákvarðanatöku við lögmenn ASÍ og erum bara mjög keik og trúum því að við séum að gera hlutina bara alveg rétt,“ sagði Sólveig Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert