Lögreglan á Suðurlandi telur sig hafa sterkan grun um hver ökumaður bílsins er sem virðist hafa af ásettu ráði ekið bíl sínum út í Ölfusá um klukkan 22 í kvöld.
Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, í samtali við mbl.is. Í tilkynningu frá lögreglu segir að búið sé að hafa samband við aðstandendur ökumannsins og að þeir séu meðvitaðir um aðgerðir lögreglu, slökkviliðs, þyrlu og björgunarsveitarmanna á vettvangi.
Brak úr bílnum hefur fundist í ánni og styður það við grun lögreglu um ökumann bílsins. Allar björgunarsveitir í Árnessýslu hafa verið kallaðar út og leitað er á ánni á bátum og úr lofti af þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Einnig hefur verið óskað eftir aðstoð frá björgunarsveitum úr Reykjavík og búnaði frá þeim líkt og drónum, hitamyndavélum og ljósabúnaði. Oddur segir að leit verði fram haldið í nótt en veðurskilyrði við ána eru ekki sem best, rigning og hvasst.