Umfangsmikil leit við Ölfusá

Lögregla og slökkvilið voru kölluð út eftir að lögreglu barst …
Lögregla og slökkvilið voru kölluð út eftir að lögreglu barst tilkynning um að bíll hafi farið í ána. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Umfangsmikil lögregluaðgerð stendur nú yfir við Ölfusárbrú á Selfossi þar sem talið er að bíll hafi farið í ána fyrir ofan Selfosskirkju. Neyðarlínan gat ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu en heimildir mbl.is herma að sex til sjö lögreglubílar auk sjúkrabíla séu á svæðinu. 

Vísbendingar eru um að bílnum hafi verið ekið í ána af ásettu ráði. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi. Talið er að einn hafi verið í bílnum en brak úr bílnum hefur sést í ánni. 

Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar og samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð gæslunnar fór þyrlan í loftið klukkan 22:41 og leitar hún úr lofti. 

Mikill viðbúnaður er við ána og búið er að lýsa hluta af henni upp við brúna. Allar björgunarsveitir í Árnessýslu hafa verið kallaðar út að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Fyrstu viðbragðsaðilar leita að bílnum á bátum á ánni. 

Einnig hefur verið óskað eftir aðstoð frá björgunarsveitum úr Reykjavík og búnaði frá þeim líkt og drónum, hitamyndavélum og ljósabúnaði. 

Fréttin verður uppfærð. 

Björgunarmenn að störfum við Ölfusá. Talið er að bíll hafi …
Björgunarmenn að störfum við Ölfusá. Talið er að bíll hafi farið út af brúnni og ofan í ána um klukkan 22 í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka