Umfangsmikil lögregluaðgerð stendur nú yfir við Ölfusárbrú á Selfossi þar sem talið er að bíll hafi farið í ána fyrir ofan Selfosskirkju. Neyðarlínan gat ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu en heimildir mbl.is herma að sex til sjö lögreglubílar auk sjúkrabíla séu á svæðinu.
Vísbendingar eru um að bílnum hafi verið ekið í ána af ásettu ráði. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi. Talið er að einn hafi verið í bílnum en brak úr bílnum hefur sést í ánni.
Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar og samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð gæslunnar fór þyrlan í loftið klukkan 22:41 og leitar hún úr lofti.
Mikill viðbúnaður er við ána og búið er að lýsa hluta af henni upp við brúna. Allar björgunarsveitir í Árnessýslu hafa verið kallaðar út að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Fyrstu viðbragðsaðilar leita að bílnum á bátum á ánni.
Einnig hefur verið óskað eftir aðstoð frá björgunarsveitum úr Reykjavík og búnaði frá þeim líkt og drónum, hitamyndavélum og ljósabúnaði.
Fréttin verður uppfærð.