Vilja stuðning þings vegna reglna LÍN

mbl.is/Hjörtur

Stúdentahreyfingar landsins og ungliðahreyfingar flokka skora á þingflokka að sýna í verki samstöðu með kröfum stúdenta með því að mæta á samstöðufund sem halda á framan við húsakynni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) á morgun. Þann dag mun stjórn LÍN taka ákvörðun um úthlutunarreglur fyrir skólaárið 2019-2020. 

Í fréttatilkynningu Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) er bent á að samtökin hafi í síðasta mánuði staðið fyrir herferð þar sem bent var á þá alvarlegu vankanta sem séu á úthlutunarreglum lánasjóðsins.

Meðal annars hafi frítekjumark hækkað um 0% frá árinu 2014, en á þessum sama tíma hafi laun í landinu hækkað um 43% samkvæmt launavísitölu Hagstofu. 70% lánþega LÍN eru sögð hafa farið yfir frítekjumark á árinu 2017 og hlotið skerta framfærslu fyrir vikið.

„Eins og staðan er í dag festast stúdentar í vítahring frítekjumarks og framfærslu og neyðast til þess að vinna með námi. Stúdentar krefjast þess að frítekjumark verði hækkað upp í 1.330.000 kr í samræmi við launaþróun og að húsnæðisgrunnur í framfærslu sem hljóðar í dag upp á 75.000 kr verði endurreiknaður á gagnsæjan máta í samráði við stúdenta,“ segir í tilkynningunni.

Þá skora landssamtökin á alla flokka á Alþingi að styðja við kröfur stúdenta í ár um bættar úthlutunarreglur í verki og leggja sitt af mörkum við að bæta þannig kjör stúdenta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert