Umhverfisstofnun mun loka Fjaðrárgljúfri í Skaftárhreppi fyrir umferð gesta klukkan 09:00 í fyrramálið. Um er að ræða gönguslóða meðfram gilinu.
Fram kemur á vefsíðu Umhverfisstofnunar að svæðið sé mjög illa farið vegna mikils fjölda ferðamanna, snöggra veðrabreytinga, hlýinda og mikillar vætu. Ákvörðunin er tekin með vísan til náttúruverndarlaga.
Um skyndilokun er að ræða sem mun standa í tvær vikur. Ákvörðunin verður síðar endurskoðuð.
Svæðinu var einnig lokað tímabundið í um tvær vikur í janúar vegna vætutíðar og ágangs.