„Það gekk mjög vel í morgun og það var góð mæting,“ segir Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) sem standa fyrir samstöðufundi stúdenta fyrir utan höfuðstöðvar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) þar sem fundur stjórnar sjóðsins fer fram.
Á fundinum verður tekin ákvörðun um úthlutunarreglur fyrir skólaárið 2019 til 2020 og fara LÍS fram á að framfærsla og frítekjumark stúdenta verði hækkuð.
„Við vorum búin að láta vita af okkar kröfum fyrir fundinn og fulltrúar stúdenta í stjórn LÍN hafa haldið þeim á lofti,“ segir Elsa María. Þá voru stjórnarmönnum LÍN afhentar stuðningsyfirlýsingar Bandalags háskólamanna (BHM) og samstarfsnefndar háskólastigsins, samráðsvettvangs allra rektora á Íslandi, við kröfur stúdenta fyrir fundinn.
Fyrir samstöðufundinn höfðu LÍS skorað á þingflokka á Alþingi að standa með stúdentum og að sögn Elsu mættu þeir Logi Einarsson og Guðjón Brjánsson frá Samfylkingunni og Halldóra Mogensen frá Pírötum.
„Svo voru fulltrúar BHM á svæðinu. Það var mjög gott að finna fyrir svona samstöðu með okkar kröfum.“
Að sögn Elsu Maríu stendur samstöðufundurinn þar til fundi stjórnar LÍN lýkur um hádegi. „Við erum í biðstöðu einmitt núna en verðum tilbúin þegar fundurinn klárast um hádegi. Það er ekki of seint að koma þó að fundurinn sé hafinn. Við bíðum hér með öndina í hálsinum.“