Hlé gert í nótt á leitinni við Ölfusá

Björgunarmenn að störfum við Ölfusá í gærkvöldi. Hlé var gert …
Björgunarmenn að störfum við Ölfusá í gærkvöldi. Hlé var gert á leitinni í nótt, en stefnt er að því að hefja leit að nýju í birtingu. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Hlé var gert á öðrum tímanum í nótt á leitinni að manni sem talinn er hafa ekið bíl sínum út í Ölfusá seint í gærkvöldi. Vakt var þó enn á nokkrum stöðum við ána að því er fram kemur á vef lögreglunnar.

Viðbragðsaðilar munu funda núna klukkan sjö til að ákveða framhaldið en til stendur að hefja leit aftur í birtingu svo framarlega sem veður leyfir.

Tæplega 100 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í gærkvöldi, auk áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar, slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu og sjúkraflutningum HSU ásamt lögreglumönnum.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, staðfesti í samtali við mbl.is í gærkvöldi að lögregla teldi sig hafa sterkan grun um hver ökumaður bílsins væri og var búið að hafa samband við aðstandendur hans sem höfðu fengið aðstoð frá áfallateymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka