Umhverfisstofnun áformar að loka svæðinu við Fjaðrárgljúfur frá og með morgundeginum, en stefnt er að því að meta aðstæður á svæðinu aftur innan tveggja vikna. Svæðinu var einnig lokað tímabundið í um tvær vikur í janúar vegna vætutíðar og ágangs.
Á heimasíðu stofnunarinnar segir að núverandi gönguslóði og umhverfi hans sé mjög illa farið vegna mikils fjölda ferðamanna samhliða snöggum veðrabreytingum, hlýindum og mikilli vætu. Um skyndilokun er að ræða af öryggisástæðum og til að vernda gróður umhverfis göngustíga og þurfa athugasemdir að berast fyrir kl. 14 í dag, þriðjudaginn 26. febrúar.
Á laugardag lokaði Umhverfisstofnun svæði á Skógaheiði, en mikill fjöldi ferðamanna heimsækir náttúruvættið Skógafoss dag hvern og gengur stór hluti þeirra upp á Skógaheiði, segir á vef ust.is
„Vegna umferðar gesta, hlýinda og mikilla leysinga í kjölfar langvarandi frostakafla, hefur skapast gríðarlegt álag á gönguslóða og umhverfi hans á Skógaheiði ofan Fosstorfufoss. Umrætt svæði er gamall kindaslóði, hluti af gönguleið um Fimmvörðuháls sem hefur ekki verið lagaður að auknum fjölda ferðamanna,“ segir enn fremur á vefnum.