Seðlabanka Íslands tókst ekki að sýna fram á nauðsyn þess að leggja stjórnvaldssekt á Samherja með vísan til ákvarðana í sambærilegum málum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð bankaráðs Seðlabankans vegna dóms Hæstaréttar í máli Samherja gegn Seðlabankanum.
Þá telur bankaráð að ekki verði hjá því komist að ráðast í heildarendurskoðun á allri stjórnsýslu Seðlabanka Íslands, meðferð mála innan hans og því með hvaða hætti bankinn hefur á umliðnum árum farið með það opinbera vald sem honum hefur verið falið lögum samkvæmt, einkum við gjaldeyriseftirlit.
Greinargerðin var gerð opinber í dag en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra óskaði eftir henni í nóvember, fjórum dögum eftir að Hæstiréttur felldi niður fimmtán milljóna króna sekt sem Seðlabankinn lagði á Samherja vegna gjaldeyrislagabrota. Forsætisráðherra óskaði sérstaklega skýringa á því hvers vegna bankinn tók málið upp á ný eftir að héraðssaksóknari endursendi bankanum erindið í annað sinn.
Í greinagerðinni segir að þær skýringar sem Seðlabankinn hefur gefið á því hvaða ástæður eða sjónarmið lágu að baki þeirri ákvörðun bankans að endurupptaka mál Samherja 30. mars 2016 og leggja á hann stjórnvaldssekt í framhaldinu standist ekki.
Að mati höfunda greinargerðarinnar hlýtur Alþingi, í ljósi þeirra lýsinga sem koma fram í áliti umboðsmanns Alþingis á samskiptum hans við Seðlabankann, sem fjallað er um í greinargerðinni, að taka framgöngu yfirstjórnar bankans í samskiptum sínum við umboðsmann til sérstakrar umfjöllunar og skoðunar.