Rýmum fjölgi um 580 til ársins 2023

Fram til ársins 2023 mun hjúkrunarrýmum fjölga um rúmlega 580, …
Fram til ársins 2023 mun hjúkrunarrýmum fjölga um rúmlega 580, auk þess sem 200 rými til viðbótar verða endurbætt, samkvæmt svari ráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á yfirstandandi framkvæmdaáætlun, sem nær fram til ársins 2023, mun hjúkrunarrýmum fjölga um rúmlega 580, auk þess sem 200 rými til viðbótar verða endurbætt. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar.

Þorsteinn spurði um hjúkrunar- og dvalarrými, hversu mörg hefðu verið tekin í notkun síðustu 10 ár og hversu mörgum hefði verið lokað á sama tímabili. Þá spurði Þorsteinn hversu mörg rými væri áætlað að taka í notkun á næstu tveimur árum.

Fram kemur í svari ráðherra að á síðustu tíu árum hafi 392 hjúkrunarrrými verið byggð og 302 verið aflögð. Því hafi rýmum fjölgað um 90 á síðustu 10 árum og eru þá meðtalin þau 40 rými sem voru tekin í notkun á þessu ári á Seltjarnarnesi.

„Fyrir lok þessa árs bætast við 100 ný rými þegar hjúkrunarheimilin verða opnuð á Sólvangi í Hafnarfirði og við Sléttuveg í Reykjavík,“ segir í svari ráðherra.

„Með aukinni áherslu á stuðning við sjálfstæða búsetu aldraðra með styrkingu heimahjúkrunar og fjölgun dagdvalarrýma hefur dvalarrýmum fækkað á þessum tíma úr 661 árið 2009 í 214 nú. Að frumkvæði rekstraraðila hefur dvalarrýmum verið breytt í hjúkrunar- og dagdvalarrými sem talin hefur verið meiri þörf fyrir,“ segir sömuleiðis í svari Svandísar.

Fréttatilkynning um málið á vef ráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert