Setja aukinn þunga í leitina

Frá leitinni í nótt. Lögregla, björgunarsveitarmenn, slökkviliðsmenn og Landhelgisgæslan hafa …
Frá leitinni í nótt. Lögregla, björgunarsveitarmenn, slökkviliðsmenn og Landhelgisgæslan hafa komið að henni. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Verið er að setja aukinn þunga í leit að karlmanni, sem talinn er hafa ekið bifreið sinni út í Ölfusá seint í gærkvöldi, eftir að dregið var úr leitinni í nótt. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is en eftirlit hefur engu að síður verið með ánni í alla nótt að hans sögn.

„Það voru leitarhópar að störfum mestalla nóttina. Síðustu hópar voru að klára verkefni sín um klukkan fimm. Síðan hafa þekktir staðir í ánni verið vaktaðir og nú er verið að setja aukinn þunga aftur í leitina. Það var dregið úr henni í nótt. Það eru leitarhópar að mæta á svæðið. Bæði úr Árnessýslu og einnig úr Reykjavík.“

Davíð segir að þessir hópar séu að taka við verkefnum þeirra sem hafa verið við leit til þessa. Bæði sé um að ræða hópa sem voru við leit í gærkvöldi en hafa náð að hvíla sig í millitíðinni og einnig hópa sem hafa ekki komið að leitinni áður. Vakt hafi enn fremur verið hjá stjórnendum í alla nótt. Veðrið skipti enn fremur miklu máli.

„Veðrið stjórnar síðan talsvert framvindunni í dag. Þetta veltur töluvert á aðstæðum til leitar. Staðan verður bara tekin reglulega yfir daginn. Lögreglan á Suðurlandi tekur endanlegar ákvarðanir um það hvort bætt verði í eða leit hætt ef til þess kemur,“ segir Davíð. Lögreglan telur sig vita hver maðurinn er og hefur verið haft samband við aðstandendur.

Tæplega eitt hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í gærkvöldi, auk áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar, slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu og sjúkraflutningum HSU ásamt lögreglumönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert