Verið að fjölga björgunarsveitarfólki

„Hópar af suðvesturhorninu eru komnir á staðinn og verið er að óska eftir fleiri gönguhópum af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is vegna leitar sem staðið hefur yfir síðan í gærkvöldi að karlmanni sem talinn er hafa ekið bifreið sinni út í Ölfusá.

„Við erum þannig að fjölga fólki frá okkur á staðnum,“ segir Davíð. Aðspurður segir hann á þriðja hundrað viðbragðsaðila hafa komið að aðgerðunum frá því í gærkvöldi. Þar af um 170 björgunarsveitarmenn. Leit hefur staðið yfir allt frá því að tilkynning barst um málið í gærkvöldi. Dregið var úr henni í nótt en síðan settur aukinn kraftur í hana í morgun.

Veður hefur sett strik í reikninginn og torveldað leitina. Leitin fer fram meðal annars á bátum og gönguhópar þræða bakka árinnar. Sérstaklega hafa staðir, þar sem líklegt er talið að eitthvað sem fer í ána stöðvist, verið vaktaðir að sögn Davíðs. Lögreglan á Suðurlandi fer með stjórn aðgerða en hún telur sig vita hver maðurinn er sem um er að ræða og hafa aðstandendur verið látnir vita.

mbl.is/Hallur Már Hallsson
mbl.is/Hallur Már Hallsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert