Afskipti Seðlabankans „óforsvaranleg“

Þórunn Guðmundsdóttir lögmaður situr í bankaráði Seðlabanka Íslands.
Þórunn Guðmundsdóttir lögmaður situr í bankaráði Seðlabanka Íslands. mbl.is/Hari

Afskipti Seðlabanka Íslands af störfum bankaráðs Seðlabankans í tengslum við vinnslu greinargerðar sem forsætisráðherra óskaði eftir vegna dóms Hæstaréttar Íslands um mál bankans gegn Samherja voru „óforsvaranleg“ og viðbrögð Seðlabankans eftir dóm Hæstaréttar nóvember og eftir að umboðsmaður Alþingis skilaði áliti sínu fyrir rúmri viku „eru ekki til merkis um að stjórnendur bankans taki til sín þá alvarlegu gagnrýni sem þar kom fram“.

Þetta segir í harðorðri bókun bankaráðsmanna Seðlabankans, þeirra Sigurðar Kára Kristjánssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur, sem birt var samhliða greinargerð bankaráðsins í gær. Þau gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu Seðlabankans vegna vinnu bankaráðs, sem ráðist var í að beiðni forsætisráðherra.

Undir orð þeirra taka, að hluta að minnsta kosti, bankaráðsmennirnir Frosti Sigurjónsson og Una María Óskarsdóttir.

Einnig kemur fram í bókun þeirra að lögfræðiráðgjöf Seðlabankans hafi gert „verulegar athugasemdir við fyrirhuguð efnistök“ bankaráðs þar sem efnistökin gætu valdið því að trúnaður yrði brotinn. Þetta gerði lögfræðiráðgjöf Seðlabankans með minnisblaði til bankaráðs 7. desember sl.

Hljóti að teljast einsdæmi

„Vart þarf að taka fram að lögum samkvæmt er ekki ráð fyrir því gert að Seðlabanki íslands hafi eftirlit með eigin embættisfærslum og stjórnvaldsákvörðunum. Er það því ekki hlutverk bankans að gera athugasemdir við eða að reyna að hafa áhrif á efnistök svara bankaráðs við fyrirspurn forsætisráðherra þegar bankaráðið sinnir lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.

Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og bankaráðsmaður Seðlabankans.
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og bankaráðsmaður Seðlabankans. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Enn síður getur talist eðlilegt, hvað þá lögum samkvæmt, að Seðlabankinn geri tilraun til þess að hindra að bankaráðið svari fyrirspurnum þess ráðherra sem málefni bankans heyra undir með þeim hætti sem gert var í minnisblaði lögfræðiráðgjafar hans,“ segir í bókun þeirra Sigurðar Kára og Þórunnar.

Þau segja einnig að það hljóti að „teljast einsdæmi að opinber stofnun gangi jafn langt í því að reyna að koma í veg fyrir að yfirstjórn hennar, í þessu tilviki bankaráðið, svari fyrirspurnum þess ráðherra sem stofnunin heyrir undir í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar íslands um lögmæti stjórnvaldsákvarðana hennar“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert