Már Guðmundsson seðlabankastjóri ritaði í bréfi sem hann sendi forsætisráðherra í lok janúar að þrátt fyrir að Samherji hafi ekki verið fundinn sekur fyrir dómstólum vegna þeirra brota sem fyrirtækið var kært fyrir, sé „ekki þar með sagt að málatilbúnaður Seðlabankans hafi verið tilhæfulaus“.
Bréfið, sem seðlabankastjóri ritaði Katrínu Jakobsdóttur 29. janúar síðastliðinn, hefur verið birt í heild sinni á vef Seðlabanka Íslands, en í gær var opinberuð greinargerð bankaráðs Seðlabankans, sem forsætisráðherra óskaði eftir í nóvember síðastliðnum.
Í bréfi sínu til forsætisráðherra segir Már að það sé „vandmeðfarið að ræða það opinberlega hvort málatilbúnaður Seðlabankans í Samherjamálinu hafi verið tilhæfulaus eins og fullyrt hefur verið í fjölmiðlun,“ þar sem ýmis helstu gögn málsins séu ekki opinber og að tal um slíkt gæti verið túlka af sumum sem „verið væri að halda því fram að Samherji væri sekur hvað sem niðurstöðum dómstóla líður“.
„Það hefur reyndar þegar verið gert af hálfu talsmanna Samherja þegar ég eftir að dómurinn féll tjáði mig í fjölmiðlum til að útskýra muninn á þeirri spurningu hvort Samherji sé sekur og þeirri hvort aðgerðir Seðlabankans hafi verið tilhæfulausar. Fari Samherji hins vegar í skaðabótamál verður ekki undan þessari umræðu vikist og að a.m.k. einhver málsskjöl yrðu lögð fyrir dóminn og yrðu í þeim skilningi opinber. Ég hefði reyndar ekkert á móti því að öll gögn málsins yrðu gerð opinber. Það verður hins vegar ekki gert nema að fengnu samþykki Samherja og það yrði að stroka yfir upplýsingar sem koma fram um þriðju aðila,“ skrifar seðlabankastjóri.
Már skrifar einnig að eftirlitsstofnanir, lögregla og saksóknarar verði oft fyrir gagnrýni á opinberum vettvangi af hálfu þeirra sem aðgerðir þeirra beinast að og að fjölmiðlar spyrji stundum út í slík mál og krefjist upplýsinga og skýringa.
„Eðlileg þagnarskylda gerir það hins vegar að verkum að það er oft ekki hægt og er þá viðtekið svar að viðkomandi geti ekki tjáð sig um einstök mál. Þetta á einnig við um Seðlabankann þegar kemur að málum einstakra aðila varðandi gjaldeyrislög, hvort sem það er eftirlit, undanþágur eða rannsóknir. Það virðist hins vegar að slík tilsvör séu síður samþykkt þegar kemur að Seðlabankanum,“ skrifar seðlabankastjóri og segir það líklega vegna þess að starfsmenn bankans séu vanir því að tjá sig um önnur atriði, svo sem varðandi peningastefnu, fjármálastöðugleika og rekstur bankans.
Már segir að tilhneiging sé til þess að túlka þögn Seðlabankans „sem vísbendingu um að eitthvað þoli ekki dagsljós“.
„Seðlabankinn á því erfiðara með því að draga sig inn í skel og bíða þar til mál skýrast. Orðsporsáhætta og neikvæð smitáhrif á aðra starfsemi getur orðið meiri í tilfelli Seðlabankans en sérhæfðari eftirlitsstofnana, lögreglu og saksóknara,“ segir Már í bréfi sínu til forsætisráðherra.
Seðlabankastjóri skrifar að aðgerðir Seðlabankans gegn Samherja, hafi haft „töluverð fælingaráhrif.“
„Þetta mátti t.d. glögglega sjá eftir húsleitina hjá Samherja þó svo ekki hafi verið hugsað út í það fyrirfram, enda ekki lögmætt sjónarmið í þessu sambandi. Það að það tókst að stöðva streymi aflandskróna á álandsmarkað, bæta virkni skilaskyldu og senda skýr skilaboð um að Seðlabankanum var alvara með því að framfylgja höftunum bjó í haginn fyrir hið árangursríka uppgjör við erlenda kröfuhafa,“ skrifar Már.
Í bréfinu, sem er níu blaðsíður, fer Már yfir málið og segist draga þrjá meginlærdóma af „þessari sögu“.
Í fyrsta lagi þurfi að vanda betur til löggjafar og tryggja það „eins og kostur er að ef talið er nauðsynlegt til skemmri eða lengri tíma að setja í lög ákvæði sem hamla viðskiptafrelsi einstaklinga og fyrirtækja með tilvísun til almannahagsmuna að það sé tryggur lagagrunnur fyrir eftirliti, rannsóknum, refsikenndum viðurlögum, þvingunarúrræðum og refsingum. Ella er hætt við að það sé gróflega verið að mismuna borgurunum þar sem þeir hagnast sem fara ekki eftir reglunum á kostnað þeirra sem gera það sjálfviljugir.“
Í öðru lagi segist Már telja að skapa þurfi meira svigrúm fyrir sveigjanleika við úrlausn mála. „Þar má nefna meira svigrúm til að leiðbeina, leysa mál með sátt og því að vinda ofan af brotum þar sem því verður við komið í stað sakfellinga og refsinga,“ skrifar Már. Þetta segir hann geta virst í andstöðu við fyrsta lærdóminn sem hann nefndi, en að svo þurfi ekki endilega að vera.
„Í tilfelli fjármagnshafta felast almannahagsmunirnir í því að þau halda. Ef það næst jafnmikill eða meiri árangur eftir þessari leið hvað það varðar heldur en eftir refsileiðinni þá er hún auðvitað æskilegri því hún felur í sér meira meðalhóf og minni átök. Markmiðið er ekki að hámarka sakfellingar og refsingar heldur að tryggja að stefnan virki eins og ætlast er til með sem minnstri mismunun og kostnaði,“ skrifar Már.
Í þriðja lagi segir Már að ljóst sé að núverandi fyrirkomulag við rannsókn á brotum á gjaldeyrislögum gangi ekki og fyrra fyrirkomulag hjá FME heldur ekki. Þetta þurfi að skoða í þeirri vinnu sem nú stendur yfir varðandi endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands og sameiningu við FME.
„Að mínu mati er óheppilegt að þessi starfsemi heyri beint undir seðlabankastjóra. Það þarf fjarlægð til að koma í veg fyrir að mál séu persónugerð honum til að skapa stöðu sem málsaðilar hafa yfirleitt ekki gagnvart sérhæfðari eftirlitsaðilum. Heppilegast er að það sé fjölskipuð stjórn eða nefnd sem taki lokaákvarðanir varðandi kærur eða sektir. Þá þarf að fara yfir hlutverk bankaráðs og tryggja að það blandi sér ekki í afgreiðslu einstakra mála. Þetta þarf allt að gera án þess að fórna því markmiði að það sé skýr og hagkvæm verkaskipting og góð dreifing upplýsinga í sameinaðri stofnun en það er eitt af meginmarkmiðum sameiningarinnar,“ skrifar Már.