Fella þarf niður fundi í umhverfis- og heilbrigðisráði, skipulags- og samgönguráði og borgarráði vegna vetrarfría í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Voru skólafrí þessi sl. mánudag og þriðjudag en halda átti fundina í dag, miðvikudag, og á morgun, fimmtudag.
Mun þetta vera fylgifiskur þess að gera Reykjavíkurborg að „fjölskylduvænum vinnustað“ því ekki mun hafa gefist tími til að undirbúa áðurnefnda fundi.
„Við erum að gera borgarstjórn og Reykjavíkurborg að fjölskylduvænum vinnustað. Það er vetrarfrí í skólum borgarinnar þessa vikuna,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, í Morgunblaðinu í dag, og vísar til vetrarfrís grunnskólakrakka á mánudag og þriðjudag.
Sigurborg Ósk segir frídagana tvo vera þá daga sem alla jafna eru nýttir til að undirbúa þá fundi sem fella þarf niður. Segir hún það myndu vera „mjög erfitt“ að halda óbreyttu plani og funda þrátt fyrir skólafríið.