„Þessi bollasöfnun á upphaf sitt í því að fyrir um þrjátíu árum átti ég erindi í fyrirtæki í Reykjavík og á leið minni þaðan út sá ég í glugga á stigaganginum drulluskítuga krús sem merkt var fyrirtækinu og ég greip hana og stakk henni í vasann. Allar götur síðan hef ég safnað fyrirtækjabollum, íslenskum og erlendum, og nú eru krúsirnar orðnar um 120. Ég setti mér ákveðið markmið þegar ég byrjaði að safna þessum krúsum, þær áttu að vera merktar fyrirtækjum og þeim átti að vera stolið. En ég hef farið mikið út af því spori í gegnum tíðina, því fólk hefur gefið mér margar krúsir til að bæta í safnið. Ég er orðinn latur við að kíkja sjálfur eftir krúsum, krakkarnir koma mest með þetta til mín núorðið,“ segir Emil Ragnarsson þar sem hann sýnir blaðamanni bollasafnið sitt á heimili sínu og eiginkonunnar Ingibjargar Guðmundsdóttur á Eyrarbakka.
Þegar bollarnir eru skoðaðir kemur í ljós að margir þeirra eru minnisvarðar horfinna fyrirtækja. „Sumir þessir bollar hafa sannarlega náð að endast betur en fyrirtækin sjálf, en svo eru líka margir þeirra með eldri lógóum sem ekki eru lengur í notkun þó fyrirtækin lifi, til dæmis er hér gamall bolli frá Landsbankanum með lógói sem aðeins eldra fólk man eftir.
Bankarnir hafa sumir lagt upp laupa og lifnað við aftur með nýjum lógóum,“ segir Emil og dregur fram bolla frá Pósti og síma með löngu gleymdu lógói. Athygli vekur að þrír bollar í safni Emils eru merktir Morgunblaðinu og hafði sá nýjasti bæst í hópinn aðeins fyrir viku , en allt eru það gamlir Moggabollar sem ekki sjást lengur á borðum í því fyrirtæki.
Sjá viðtal við Emil og Ingibjörgu í heild í Morgunblaðinu í dag.