Göngudeild SÁÁ á Akureyri verður lokað um óákveðinn tíma frá og með 1. mars. Ekki hafa náðst samningar milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands en starfsemin var tryggð í fjárlögum í nóvember.
Hörður Oddfríðarson, dagskrárstjóri göngudeildarinnar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.
Hann segist hafa fengið fyrirmæli frá framkvæmdastjórn SÁÁ. Samtökin hafi ekki efni á að halda úti starfseminni í eigin reikningi.
Greint var frá því í janúar á síðasta ári að göngudeildinni yrði lokað en ekkert varð af lokuninni.
SÁÁ hóf rekstur göngudeildar á Akureyri í byrjun árs 1993 og hefur deildin sinnt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á öllu Norðurlandi síðan.
Flestir þjónustuþegar koma til að fá eftirfylgd að lokinni dvöl á sjúkrahúsinu Vogi eða eftirmeðferðarstöðinni Vík.