Rúmar níu klukkustundir eru síðan önnur umræða hófst á Alþingi um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.
Umræðan hófst rétt eftir klukkan þrjú í dag að lokinni sérstakri umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar. Þingmenn Miðflokksins hafa beitt málþófi í yfir níu klukkustundir og enn eru allir þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá.
Umræðurnar fóru fjörlega af stað og var Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, gríðarlega heitt í hamsi þegar Smári McCarthy Pírati spurði Sigmund um hagsmuni hans í tengslum við umræður um aflandskrónueigendur og vogunarsjóði. Sigmundur sagði framkomu Smára nýja lægð hjá Pírötum.
Þegar þetta er skrifað er hins vegar verið að ræða nefndarfundi og þegar þingmenn Miðflokksins hafa lokið máli sínu óska þeir eftir að komast aftur á mælendaskrá.
Á heimasíðu Alþingis má fylgjast með beinni útsendingu frá umræðum á þinginu.