„Þetta voru fyrstu fundirnir svo við fórum yfir praktísk atriði og lögðum upp vinnuplan fyrir næstu daga og vikur,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
Í morgun fóru fram fyrstu samningafundir Starfsgreinasambandsins annars vegar og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna hins vegar við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara, en samböndin vísuðu deilum sínum til sáttasemjara fyrir helgi.
„Við erum sammála um það að leggja upp tiltölulega stíft vinnuplan fyrir dagana og vikurnar fram undan,“ segir Bryndís. Gert er ráð fyrir að fyrstu vinnufundir SGS og SA hefjist strax á föstudagsmorgun. „Helgin verður undir og dagarnir í vikunni fram undan. Svo verða hóparnir kallaðir inn eftir þörfum.“
Bryndís segir ákvörðun um næsta formlega samningafund verða tekna þegar líður á vinnufundina.
Aðspurð hvernig hún meti stöðuna í viðræðum sambandanna við SA segir Bryndís að samtal sé í gangi. „Það er í raun og veru lítið annað hægt að segja um það á þessu stigi.“