„Brot gegn starfsfólki eru ólíðandi og það þarf að finna leiðir til að koma í veg fyrir þau, en kjarasamningar leysa það ekki, því miður,“ segir Eva Jósteinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstarsviðs hjá CenterHotels. Hún gerði umræðuna í kringum kjaradeilur Eflingar og Samtaka atvinnulífsins að umræðuefni í pistli á Facebook í gær.
„Þessi umræða snertir mig og mér fannst ég þurfa að svara því þegar formaður Eflingar segir hótel koma fram við starfsfólk eins og einnota drasl, því þar er ég henni svo gjörsamlega ósammála“, segir Eva í samtali við mbl.is.
Hún segir samtalið ekki vera á háu plani. „Ég skil að athygli sé vakin á því sem má betur fara, en það getur ekki verið það eina sem fjallað er um og það má ekki setja alla undir sama hatt. Þá eru allir dæmdir án ástæðu. Sem betur fer eru flest fyrirtæki að passa vel upp á og koma vel fram við starfsfólkið og vinna með því að markmiðum til lengri tíma en það er rosalega auðvelt að brjóta það niður í svona umræðu. Hótelin sitja ekki við samningaborðið og þarna er verið að alhæfa um ferðaþjónustuna eins og hún sé eitt fyrirtæki. Þetta er skrýtin staða.“
„Mér finnst tilgangur verkalýðsforystunnar með því að koma svona fram með áróður og alhæfingar ekki vera nógu skýr og á erfitt með að sjá hvernig það hjálpar til með að leysa kjarasamninga,“ segir Eva. Henni finnst að frekar ætti að einblína á það að einbeita sér að því að finna lausnir í þessari deilu. „Það virðist bera mikið á milli aðila, en ég hvet aðila til að tala saman og finna lausnir.“