Neyðarskorsteinar á kísilverksmiðju PCC á Bakka á Húsavík voru opnir um tíma í dag vegna viðhalds á rykhreinsibúnaði í ljósbogaofnum. Af þeim sökum barst töluverður reykur og lykt frá verksmiðjunni.
Neyðarskorsteinarnir voru einnig opnaðir á sunnudag og segir Jökull Gunnarsson, forstjóri PCC á Bakka, í samtali við Morgunblaðið í dag að snjókoma og kuldi á iðnaðarsvæðinu hafi valdið erfiðleikum við rekstur kísilversins í vetur. Stíflur hafi myndast í reykhreinsivirki versins eftir að þurft hefur að slökkva á ofnum hennar í lengri tíma og það leiðir aftur til þess að slökkva hefur þurft á ofnunum aftur til að hreinsa.
Fyrsta starfsár kísilversins hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig, slökkva hefur þurft á ofnunum nokkrum sinnum, tölvubúnaður hefur bilað og auk þess kom eldur upp í verksmiðjunni í byrjun júlí.