Ragnari Aðalsteinssyni, lögmanni hjá Rétti, hefur verið veitt umboð af hálfu Eflingar til innheimtu vangoldinna launa og greiðslna. Þá er lögmanninum falið að gæta hagsmuna 18 verkamanna hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu Eflingar.
Heimild hefur einnig verið veitt til að „afla gagna sem málið kann að varða og krefjast opinberrar rannsóknar á hugsanlega refsiverðu athæfi Manna í vinnu og kæra ef til þess kemur.“
Menn í vinnu hefur hins vegar krafið Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar, og Drífu Snædal, forseta ASÍ, um afsökunarbeiðni og skaðabætur vegna ummæla sem þau hafa látið falla í fjölmiðlum um starfsemi fyrirtækisins. Var þeim hótað málsókn ef þau gengust ekki við beiðni fyrirtækisins.
Fram kemur í tilkynningu Eflingar að í kjölfar umfjöllunar um aðstöðu rúmenskra verkamanna hjá Mönnum í vinnu 7. febrúar, skoðuðu fulltrúar Eflingar og ASÍ „aðbúnað mannanna og virkjuðu í kjölfarið framkvæmdateymi fyrir þolendur mansals. Starfsmenn kjaramálasviðs Eflingar hafa fundað með verkamönnunum og aflað frekari gagna um málið. Vegna gruns um umfangsmikið refsivert athæfi og hugsanlegt mansal var málið fært í hendur lögmannastofunnar Réttar.“
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, fullyrti að um glæpastarfsemi væri að ræða í tengslum við rekstur fyrirtækisins í kvöldfréttum RÚV 9. febrúar. Sagði hún jafnframt að allt hafi verið eðlilegt og litið vel út við skoðun fyrirtækisins. Við mbl.is sagði hún þó stofnunina búa yfir gögnum sem vekja grun.
Fyrirtækið hefur fyrir sitt leyti vísað ásökunum á bug og sagst hafa staðið í skilum gagnvart starfsfólkinu.