Erlendir gestir eru ekki farnir að afbóka gistingu eða afþreyingu vegna yfirvofandi verkfalls hótelþerna, hjá þeim fyrirtækjum sem Morgunblaðið hafði samband við.
Hins vegar verður starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja vart við áhyggjur erlendra ferðaskrifstofa og gesta sem keypt hafa þjónustu af því hvort hótelin geti afhent þá vöru sem samið var um.
Hátt í 100 manns mættu á félagsfund hjá Samtökum ferðaþjónustunnar í gær þar sem farið var yfir stöðu mála, meðal annars yfirvofandi verkföll. Þungt hljóð var í fólki, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, en samstaða um forystu Samtaka atvinnulífsins í kjaraviðræðunum.
„Við höfum ekki fengið neinar afbókanir ennþá en fengið bókanir þar sem viðskiptavinir hafna fyrirframgreiðslu vegna þess að þeir eru ekki vissir um að fá vöruna afhenta,“ segir Kristófer Oliversson, forstjóri Center hotels og formaður samtaka fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. „Eins höfum við fengið fyrirspurnir frá gestum sem eiga bókaða gistingu og ferðaskrifstofum sem eiga bókuð herbergi, um það hvort við getum afhent umsamda vöru; uppbúin rúm í hreinum herbergjum. Við vitum hins vegar ekki af þeim sem hætta við að bóka.“