Fjórir fengið hótun um lögsókn

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir alla hjá ASÍ sem hafa …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir alla hjá ASÍ sem hafa tjáð sig um mál verkamanna hjá fyrirtækinu Menn í vinnu hafa fengið bréf þar sem er krafist skaðabóta. mbl.is/Ófeigur

Tveir starfsmenn ASÍ sem hafa tjáð sig um mál fyrirtækisins Menn í vinnu og gert athugasemdir við starfsemi þess hafa fengið sambærileg bréf og forseti sambandsins og framkvæmdastjóri Eflingar þar sem krafist er greiðslu skaðabóta, upplýsir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is. Þar með eru það fjórir einstaklingar sem hafa fengið slík bréf.

Hún segir að auk hennar sjálfrar hafi Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, og María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur í vinnustaðaeftirliti, fengið bréf frá fyrirtækinu þar sem krafist er afsökunarbeiðni og greiðslu 800 þúsund króna í skaðabætur auk 200 þúsund í lögfræðikostnað.

Snýr málið að ummælum vegna meintrar brotastarfsemi við rekstur starfsmannaleigu er snýr að 18 rúmenskum verkamönnum.

Miðað við þá fjóra sem hafa fengið bréfin er óskað eftir greiðslu samtals 3,2 milljóna króna í skaðabætur og 800 þúsund í lögfræðikostnað. Verði ekki orðið við beiðni fyrirtækisins segjast Menn í vinnu ætla að höfða mál gegn umræddum einstaklingum.

Drífa segir bréf Manna í vinnu ekki hafa áhrif á afstöðu ASÍ til reksturs fyrirtækisins. „Við erum ekki að fara að missa svefn út af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert